Ó Guð, nálægð þín er ósk mín, návist þín er von mín, minning þín er þrá mín, forgarður dýrðar þinnar er takmark mitt, aðsetur þitt er áfangastaður minn, nafn þitt lækning mín, ást þín geislan hjarta míns, þjónusta við þig mín æðsta eftirlangan! Ég grátbið þig við nafn þitt sem gerði þeim sem borið hafa kennsl á þig fært að svífa til hæstu hæða þekkingar á þér og veitti þeim sem tilbiðja þig af einlægni styrk til að komast í forgarð heilagrar hylli þinnar, – hjálpa mér að beina sjónum að ásýnd þinni, að festa augu mín á þér og tala um dýrð þína.
Ég er sá, ó Guð minn sem hefur gleymt öllu öðru en þér og leitað til dagsbrúnar náðar þinnar og yfirgefið allt nema þig sjálfan í von um að nálgast forgarð þinn. Lít því til mín þegar ég beini augum mín að aðsetrinu sem ljómar af birtu ásjónu þinnar. Send niður yfir mig, ó minn elskaði, það sem gerir mig staðfastan í málstað þínum, svo að efasemdir hinna trúlausu geti ekki hindrað mig í að leita til þín.
Þú ert sannlega Guð valdsins, hjálpin í nauðum, hinn aldýrlegi og almáttugi.
-Bahá'u'lláhÓ Guð, Guð minn! Ég hef leitað í iðran til þín og sannlega ert þú fyrirgefandinn, hinn vorkunnláti.
Ó Guð, Guð minn! Ég hef snúið aftur til þín og sannlega ert þú sá sem ætíð fyrirgefur, hinn náðugi.
Ó Guð, Guð minn! Ég hef haldið traustu taki í líftaug örlætis þíns og hjá þér er varðveitt allt á himnum og jörðu.
Ó Guð, Guð minn! Ég hef hraðað för minni til þín og sannlega ert þú fyrirgefandinn, Drottinn ríkulegrar náðar.
Ó Guð, Guð minn! Mig þyrstir eftir himnesku víni náðar þinnar og sannlega ert þú gjafarinn, hinn veglyndi og náðugi, hinn almáttugi.
Ó Guð, Guð minn! Ég ber því vitni að þú hefur opinberað málstað þinn, uppfyllt loforð þitt og sent það niður frá himni náðar sem hefur laðað til þín hjörtu þeirra sem eru þér kærir. Heill þeim sem heldur fast í trausta taug þína og tekur í geislandi klæðisfald þinn.
Ég bið þig, ó Drottinn allrar verundar og konungur hins séða og óséða, við vald þitt, tign þína og yfirráð að gefa að dýrðarpenni þinn megi skrá nafn mitt meðal helgaðra fylgjenda þinna, þeirra sem bókfell hinna syndugu hindraði ekki frá að leita til ljóss ásýndar þinnar, ó Guð, þú sem heyrir bænir og svarar þeim.
-Bahá'u'lláhLof sé þér, ó Drottinn, besti ástvinur minn! Ger mig staðfastan í málstað þínum og gef að ég megi teljast til þeirra sem ekki hafa rofið sáttmála þinn né fylgt hjáguðum sinna eigin fánýtu ímyndana. Ger mér því kleift að taka sæti sannleikans í návist þinni, gef mér tákn um miskunn þína og lát mig ganga í flokk þeirra þjóna þinna sem ekki verða slegnir ótta og enginn fær bakað hryggð. Gef mig ekki á vald sjálfs mín, ó Drottinn minn, og meina mér ekki um þekkingu á honum sem opinberar þitt eigið sjálf og tel mig ekki til þeirra sem hafa snúið frá heilagri návist þinni. Tel mig, ó Guð minn, með þeim sem njóta þeirra forréttinda að festa sjónir á fegurð þinni og hafa af því slíkt yndi að þeir myndu ekki skipta á einu andartaki þess unaðar fyrir ríki himins og jarðar né gjörvallt sköpunarverkið. Sjá aumur á mér, ó Drottinn, á þessum dögum þegar þjóðir jarðar þinnar hafa ratað í hörmulega villu. Veit mér því, ó Guð minn, það sem er gott og sæmandi að þínu mati. Þú ert vissulega hinn alvoldugi og náðugi, hinn örláti, sá sem ætíð fyrirgefur.
Gef, ó Drottinn minn, að ég megi ekki teljast til þeirra sem sviftir eru sjón, heyrn og máli og hafa skynlaus hjörtu. Frelsa mig, ó Drottinn, frá eldi fáfræði og eigingjarnrar ástríðu, leyf mér að ganga inn til sviða þinnar yfirskilvitlegu náðar og send það niður yfir mig sem þú hefur ákvarðað þínum útvöldu. Þú ert þess megnugur að gera það sem þér líst. Vissulega ert þú hjálpin í nauðum, hinn sjálfumnógi.
-BábinnVegsamaður og dýrlegur sért þú, ó Guð! Gef að sá dagur nálgist óðfluga, er við göngum í heilaga návist þína. Gleð hjörtu okkar með mætti ástar þinnar og velþóknunar og ger okkur staðfasta, svo að við gefum okkur fúslega undir þinn vilja og þína ákvörðun. Vissulega umlykur þekking þín allt, sem þú hefur skapað og munt skapa, og himneskur máttur þinn er ofar öllu, sem þú hefur kallað og munt kalla til lífs. Engan ber að tigna nema þig, engan ber að þrá nema þig, engan ber að tilbiðja nema þig og ekkert ber að elska nema velþóknun þína.
Vissulega ert þú hinn æðsti stjórnandi, hinn fullvalda sannleikur, hjálpin í nauðum, hinn sjálfumnógi.
-BábinnÓ Drottinn, Guð minn! Hjálpa þínum elskuðu að vera stöðugir í trú þinni, ganga vegu þína og vera staðfastir í málstað þínum. Veit þeim náð til að standast atlögur sjálfs og ástríðna, að fylgja ljósi himneskrar leiðsagnar. Þú ert hinn voldugi, hinn náðugi, hinn sjálfumnógi, gjafarinn, hinn vorkunnláti og almáttugi, sá sem allt gefur.
-`Abdu'l-BaháÓ þú Guð minn, sem leiðir leitandann á hinn rétta veg, frelsar hinu týndu og blindu sál frá auðnum tortímingar, þú sem veitir hinum einlægu miklar gjafir og hylli, skýlir hinum óttaslegnu í óvinnandi virki þínu og svarar frá alhæsta sjónarhring þínum hrópi þeirra sem hrópa á þig. Lofaður sért þú, ó Drottinn minn! Þú hefur leitt hina villuráfandi frá dauða vantrúar, fært þá á leiðarenda sem hafa nálgast þig, glatt hina fullvissuðu meðal þjóna þinna með því að uppfylla dýrmætustu óskir þeirra, opnað frá ríki fegurðar þinnar hlið endurfunda í ásýnd þeirra sem þrá þig og bjargað þeim frá eldi skorts og missis svo þeir hröðuðu sér til þín, gengu í návist þína, komu að opnum dyrum og fengu ríkulegan skerf gjafa.
Ó Drottinn minn, þá þyrsti og þú barst að skrælnuðum vörum þeirra bikar endurfunda. Ó mildi gjafari, þú linaðir sársauka þeirra með smyrsli veglyndis og náðar og græddir meinsemdir þeirra með æðsta læknisdómi samúðar þinnar. Ó Drottinn, ger fætur þeirra stöðuga á hinum beina vegi, víkka fyrir þeim nálaraugað og lát þá ganga í dýrð þinni um alla eilífð, íklædda konunglegum skrúða.
Vissulega ert þú hinn örláti, sá sem ætíð gefur, hinn dýrmæti og gjafmildasti. Enginn er Guð nema þú, hinn máttugi og voldugi, hinn upphafni og sigursæli.
-`Abdu'l-BaháÓ Drottinn, Guð minn! Lof og þökk sé þér að þú hefur leitt mig að þjóðbraut ríkisins, leyft mér að ganga þennan langa og beina veg, upplýst auga mitt með birtunni af ljósi þínu, seitt eyra mitt með söngljóðum fugla heilagleika úr dularheimum og fangað hjarta mitt með ást þinni meðal hinna réttlátu.
Ó Drottinn! Staðfest mig af heilögum anda svo ég geti hrópað í þínu nafni meðal þjóðanna og flutt fagnaðarerindið um birtingu ríkis þíns meðal manna.
Ó Drottinn! Ég er veikburða, styrk mig með afli þínu og getu. Mér er varnað máls, leyf mér að tjá minningu þína og lof. Ég er lítilsverður, heiðra mig með inngöngu í ríki þitt. Ég er fjarlægur, gef að ég nálgist fótskör miskunnsemi þinnar. Ó Drottinn! Ger mig skæran lampa, skínandi stjörnu og blessað tré, sem prýðist ávöxtum og skýlir öllum þessum sviðum í forsælu greina sinna. Vissulega ert þú hinn máttugi og voldugi, hinn óháði.
-`Abdu'l-Bahá