Við biðjum Guð að hjálpa þeim af náð sinni sem fara villir vega að vera sannir og réttsýnir og upplýsa þá um það sem þeir gáfu ekki gaum. Hann er að sönnu hinn örlátasti og veglyndasti. Hald ekki þjónum þínum, ó Drottinn minn, frá dyrum náðar þinnar og rek þá ekki á brott frá aðsetri návistar þinnar. Hjálpa þeim að eyða mistri hégómlegs hugarburðar, og rífa sundur hulur fánýtra ímyndana og væntinga. Þú ert vissulega eigandi alls, hinn hæsti. Enginn er Guð nema þú, hinn almáttugi og náðugi.
-Bahá'u'lláhDýrð sé Þér, ó Guð, fyrir að opinbera mannkyni ást Þína! Ó Þú sem ert líf okkar og ljós, leiðbein Þú þjónum Þínum á vegi Þínum, ger okkur auðug í Þér og frelsa okkur frá öllu nema Þér.
Ó Guð, kenn okkur einstæði Þitt og gef okkur skilning á einingu Þinni, svo að við sjáum engan nema Þig. Þú ert hinn miskunnsami og gjafarinn örláti.
Ó Guð, skapa í hjörtum Þinna elskuðu eld ástar Þinnar, svo hann gereyði hverri hugsun um annað en Þig. Birt okkur, ó Guð, Þína tignu eilífð, að Þú hefur alltaf verið og munt ætíð vera, og að enginn er Guð nema Þú. Í Þér munum við vissulega finna huggun og styrk.
-Bahá'u'lláhLof sé Þér, ó Drottinn Guð minn, meistari minn! Þú heyrir andvörp þeirra sem eru aðskildir Þér og víðsfjarri aðsetri Þínu þótt þeir þrái að líta ásýnd Þína. Þú ert vitni að harmatölum þeirra sem þekkja Þig vegna útlegðar frá Þér og brennandi löngunar að finna Þig. Ég sárbæni Þig við þessi hjörtu, sem geyma ekkert annað en fjársjóð minningar Þinnar og lofgerðar, og lýsa aðeins vitnisburði mikilleika Þíns og táknum máttar Þíns, að veita þjónum Þínum sem þrá Þig styrk til að nálgast sæti opinberunar ljómans af dýrð Þinni, og aðstoða þá sem setja von sína á Þig að ganga inn í helgidóm yfirskilvitlegrar hylli Þinnar og náðar.
Nakinn er ég, ó Guð minn! Klæð mig kyrtli mildrar miskunnar Þinnar. Ég er sárþyrstur, gef mér að drekka úr úthöfum örlátrar hylli Þinnar. Ég er ókunnugur, laða mig nær uppsprettu gjafa Þinna. Sjúkur er ég, lauga mig í heilsulind náðar Þinnar. Ég er fanginn, leys mig úr fjötrum með afli máttar Þíns og krafti vilja Þíns, svo ég fái svifið á vængjum lausnar í hæstu hæðum sköpunar Þinnar. Sannarlega gerir Þú sem Þér þóknast. Enginn er Guð nema Þú, hjálpin í nauðum, hinn aldýrlegi og óhefti.
-Bahá'u'lláhVegsamaður ert Þú, ó Drottinn Guð minn! Ég sárbæni Þig að láta því rigna úr nægtaskýjum náðar Þinnar sem hreinsar hjörtu þjóna Þinna af öllu sem kemur í veg fyrir að þeir líti ásýnd Þína eða leiti til Þín, svo þeir geti allir borið kennsl á völund sinn og skapara. Hjálpa þeim einnig, ó Guð, með allsráðandi mætti Þínum, að öðlast slíka stöðu að þeir greini hiklaust sérhvern ódaun frá ilminum af klæðum Hans sem ber Þitt háleitasta og upphafnasta nafn, svo þeir geti leitað heilshugar til Þín og njóti svo náins samneytis við Þig að þótt þeim væri gefið allt á himnum og jörðu myndu þeir ekki virða það viðlits, og neituðu að láta af að minnast Þín og vegsama dyggðir Þínar.
Ég bið Þig, ó minn ástfólgni, þrá hjarta míns; vernda Þú þjón Þinn sem leitað hefur ásjónu Þinnar gegn skeytum þeirra sem hafa afneitað Þér og atlögum þeirra sem hafa hafnað sannleika Þínum. Ger hann heilshugar helgaðan Þér, lát hann nefna nafn Þitt og festa sjónir á helgidómi opinberunar Þinnar. Þú hefur að sönnu aldrei vísað frá dyrum miskunnar Þinnar þeim sem hafa sett vonir sínar á Þig né varnað þeim sem hafa leitað Þín inngöngu í forgarð náðar Þinnar. Enginn er Guð nema Þú, hinn voldugasti og alhæsti, hjálpin í nauðum, hinn aldýrlegi og knýjandi, hinn óskilyrti.
-Bahá'u'lláhÉg veit, ó Drottinn, að yfirsjónir mínar hafa hulið ásjónu mína smán í návist þinni og hafa íþyngt mér frammi fyrir þér, komið á milli mín og fagurrar ásýndar þinnar, umkringt mig á alla vegu og aftrað mér frá að öðlast hlutdeild í opinberunum þíns himneska valds.
Ó Drottinn, ef þú fyrirgefur mér ekki, hver á þá að veita aflausn, og ef þú auðsýnir mér ekki miskunn, hver er það þá, sem séð getur aumur á mér? Dýrð sé þér; þú skapaðir mig þegar ég var ekki og þú nærðir mig þegar ég var án skilnings. Lof sé þér; sérhver örlætisvottur framgengur frá þér og sérhvert tákn náðar kemur úr fjárhirslum ákvörðunar þinnar.
-BábinnÍ nafni Drottins þíns,skaparans, yfirbjóðandans, þess sem öllum nægir, hins upphafnasta, þess sem allir leita hjálpar hjá. Seg: Ó Guð minn! Ó þú, sem ert smiður himnanna og jarðarinnar, ó Drottinn konungsríkisins! Þú þekkir gjörla leyndarmál hjarta míns, en verund þín er órannsakanleg öllum nema sjálfum þér. Þú sérð hvaðeina, sem er af mér, og engum er það megnugt nema þér. Veit mér sakir náðar þinnar það sem gerir óháðan öllu nema þér. Gef að ég megi uppskera ábata lífs míns í þessum heimi og hinum næsta. Opna fyrir ásjónu minni hlið náðar þinnar og veit mér af mildi þinni blíða miskunn þína og gjafir.
Ó þú, sem ert Drottinn nógsamlegrar náðar! Lát himneska hjálp þína umlykja alla þá, sem elska þig, og gef okkur þær gjafir og hylli, sem eru í eigu þinni. Ver okkur nægur umfram allt annað, fyrirgef syndir okkar og auðsýn okkur miskunn. Þú ert Drottinn okkar og Drottinn alls, sem skapað er. Engan áköllum við nema þig og einskis förum við á leit nema hylli þinnar. Þú ert Drottinn örlætis og náðar, ósigrandi í krafti þínum og fremstur allra í áformum þínum. Enginn er Guð nema þú, eigandi alls, hinn upphafnasti.
Veit blessanir þínar, ó Drottinn minn, boðberunum, hinum heilögu og réttlátu. Vissulega ert þú Guð, hinn óviðjafnanlegi, hinn al-knýjandi.
-BábinnÓ Drottinn! Við erum veikburða; styrk okkur. Ó Guð! Við erum fávís; ger okkur vitur. Ó Drottinn! Við erum fátæk; auðga okkur. Ó Guð! Við erum líflaus; fjörga okkur. Ó Drottinn! Við erum einskær auðmýking; veit okkur heiður í ríki þínu. Aðstoðir þú okkur, ó Drottinn, verðum við sem tindrandi stjörnur. Ef þú aðstoðar okkur ekki verðum við lægra sett en jörðin. Ó Drottinn! Styrk okkur. Ó Guð! Fær okkur sigur. Ó Guð! Ger okkur fært að sigra eigið sjálf og yfirstíga ástríðu. Ó Drottinn! Leys okkur úr ánauð efnisheimsins. Ó Drottinn! Endurlífga okkur með andblæ heilags anda svo við getum risið upp til að þjóna þér, vegsamað þig og lagt okkur fram af ítrustu einlægni í ríki þínu. Ó Drottinn, þú ert voldugur! Ó Guð, þú fyrirgefur! Ó Drottinn, þú ert samúðarríkur!
-`Abdu'l-Bahá