Guð minn sem ég tilbið og dái! Ég ber vitni einingu Þinni og einstæði og viðurkenni gjafir Þínar bæði fyrr og nú. Örlæti Þitt er takmarkalaust. Miskunn Þín hefur fallið sem regn yfir háa sem lága og ljós náðar Þinnar skinið á hlýðna sem uppreisnargjarna.
Ó Guð miskunnar! Fyrir dyrum Þínum hefur kjarni miskunnar lotið og mesti andi ástríkis hefur hringsólað um helgidóm málstaðar Þíns. Við áköllum Þína fornu náð og leitum Þinnar nærtæku hylli og biðjum Þig að miskunna öllum sem opinbera þennan tilvistarheim og synja þeim ekki um útdeilingu náðar Þinnar á dögum Þínum.
Allir eru snauðir og þurfandi, og Þú ert vissulega eigandi alls, sá er öllu ræður, hinn alvoldugi.
-Bahá'u'lláhÓ vorkunnláti Drottinn! Þú sem ert örlátur og alls megnugur. Við erum þjónar Þínir í skjóli forsjár Þinnar. Lít til okkar náðaraugum Þínum. Gef augum okkar ljós, eyrum okkar heyrn og skilning og kærleika hjörtum okkar. Fyll sálir okkar fögnuði og hamingju með gleðiboðskap Þínum. Ó Drottinn, vísa okkur leið konungsríkis Þíns og lát okkur endurfæðast fyrir tilhlutan heilags anda. Gef okkur eilíft líf og ævarandi heiður. Sameina mannkynið og lýs veröld þess. Mættum við öll fylgja Þínum vegi, þrá velþóknun Þína og leita leyndardóma konungsríkis Þíns. Ó Guð! Sameina okkur og teng Þú hjörtu okkar með Þínu órjúfanlega bandi.
Sannarlega ert Þú gjafarinn, hinn mildi og almáttugi.
-`Abdu'l-BaháÓ Þú góði Drottinn! Ó Þú sem ert örlátur og miskunnsamur! Við erum þjónar fótskarar Þinnar, samankomnir í forsælu Þinnar guðlegu einingar. Sól miskunnar Þinnar skín á alla og úr skýjum örlætis Þíns rignir yfir alla. Gjafir Þínar umvefja alla, ástrík forsjón Þín sér fyrir öllum, vernd Þín yfirskyggir alla og augu hylli Þinnar hvíla á öllum. Ó Drottinn! Gef takmarkalausar gjafir Þínar og lát ljós leiðsagnar Þinnar skína. Lát birta fyrir sjónum, gleð hjörtun með varanlegum fögnuði. Innblás alla menn nýjum anda og veit þeim eilíft líf. Ljúk upp hliðum sanns skilnings og lát ljós trúar skína geislandi. Safna öllum í forsælu örlætis Þíns og lát þá sameinast í eindrægni, svo þeir verði sem geislar sömu sólar, bylgjur eins hafs og ávextir eins trés. Megi þeir drekka af sömu lind, örvast af sama andblæ og uppljómast af einu og sama ljósi. Þú ert gjafarinn, hinn miskunnsami og alvaldi.
-`Abdu'l-BaháÓ Þú góði Drottinn! Þú hefur skapað allt mannkynið af sama stofni. Þú hefur ákvarðað, að allir tilheyri sömu fjölskyldu. Í heilagri návist Þinni eru þeir allir þjónar Þínir og allt mannkynið á sér athvarf í tjaldbúð Þinni. Allir hafa safnast saman við nægtaborð Þitt, allir eru upplýstir af ljósi forsjónar Þinnar.
Ó, Guð! Þú ert öllum góður, Þú hefur séð fyrir öllum, skýlir öllum, veitir öllum líf, Þú hefur gætt alla gáfum og hæfileikum og öllum hefur Þú sökkt í úthaf miskunnar Þinnar.
Ó, Þú góði Drottinn! Sameina alla. Gef að trúarbrögðin samræmist og ger þjóðirnar að einni þjóð, svo að þær líti hver á aðra sem eina fjölskyldu og alla jörðina sem eitt heimili. Megi þær allar lifa saman í fullkomnu samræmi.
Ó, Guð! Drag að húni fána heimseiningar.Ó, Þú góði faðir, ó Guð! Gleð hjörtu okkar með ilmi ástar Þinnar. Ger augu okkar skærari með ljósi handleiðslu Þinnar. Veit eyrum okkar unað með hljómfegurð orðs Þíns og skýl okkur öllum í virki forsjónar Þinnar.
Þú ert hinn mikli og máttugi. Þú ert sá, sem fyrirgefur, og Þú ert sá, sem umber ófullkomleika alls mannkyns.
-`Abdu'l-BaháÓ Guð, ó Þú sem hefur varpað ljóma Þínum á geislandi veruleika mannanna, úthellt yfir þá skínandi ljósi þekkingar og leiðsagnar og útvalið þá úr allri sköpun fyrir þessa guðdómlegu náð og látið þá bera skyn á alla hluti skapaða, skilja innsta kjarna þeirra, afhjúpa leyndardóma þeirra og leitt þá út úr myrkrinu inn í sýnilega heiminn. „Hann sýnir vissulega sérstaka náð sína hverjum sem Honum þóknast.“¹
Ó Drottinn, hjálpa Þú ástvinum Þínum að tileinka sér þekkingu, vísindi og listir og afhjúpa leyndardómana sem eru varðveittir í innsta veruleika alls sem skapað er. Lát þá heyra þá huldu leyndardóma, sem eru ritaðir og greyptir í hjarta alls sem er. Ger þá að gunnfánum leiðsagnar meðal allra skepna og skörpum geislum hugans sem gefa ljós sitt í þessu „fyrsta lífi“². Ger þá að leiðtogum sem leiða mennina til Þín, leiðsögumönnum sem vísa veginn til Þín, hlaupurum sem eggja menn til að leita ríkis Þíns.
Þú ert vissulega hinn voldugi, verndarinn, hinn öflugi, verjandinn, hinn máttugi og örlátasti.
*¹ Kóraninn 3:67