Announcing: BahaiPrayers.net


More Books by bænir

Andleg lausn
Andleg ráð
Andlegir eiginleikar
Aukadagarnir
Aðstoð
Bahá’í bænir-Íslenska
Bænir fyrir látnum
Börn og unglingar
Eining
Eldtaflan
Erfiðleikar og mótlæti
Fastan
Fjölskyldur
Fundir
Fyrirgefning
Græðing
Hjálp í mótlæti
Hjónaband
Kennsla og þjónusta
Kvöldbænir
Lengri skyldubænin
Lengsta skyldubænin
Lofgjörð og þökk
Mannkynið
Miskunn
Morgunbænir
Naw-Rúz
Réttur Guðs
Sigur málstaðarins
Sjóðurinn
Staðfesta
Stutta skyldubænin
Sáttmálinn
Tafla Ahmads
Tafla Hins heilaga sæfara
Vernd
Vitjunartafla
Free Interfaith Software

Web - Windows - iPhone








bænir : Hjálp í mótlæti
Hjálp í mótlæti (#1673)

Tak frá mér sorg mína af veglyndi Þínu og örlæti, ó Guð, Guð minn, og nem á brott angist mína með mætti Þínum og yfirráðum. Þú sérð mig, ó Guð minn, beina augliti mínu til Þín á þeirri stund er sorgir hafa umkringt mig á alla vegu. Ég sárbæni Þig, ó Þú Drottinn allrar ver­undar sem yfirskyggir allt sýnilegt og ósýnilegt, við nafn Þitt sem hefur sigrað hjörtu og sálir manna, og við öldurnar á úthafi náðar Þinnar og ljómann af sól hylli Þinnar að telja mig til þeirra sem alls ekkert hefur aftrað frá að leita til Þín, ó Þú Drottinn allra nafna og smiður himnanna.

Þú sérð, ó Drottinn minn, hlutskipti mitt á dögum Þínum. Ég sárbið Þig við Hann sem er dagrenning nafna Þinna og dagsbrún eiginda Þinna, að ákvarða mér það sem gerir mér kleift að rísa upp til að þjóna Þér og vegsama dyggðir Þínar. Þú ert sannlega hinn almáttugi og voldugasti, sem ert vanur að svara bænum allra manna.

Og loks bið ég Þig við ljós ásýndar Þinnar, að blessa málefni mín, greiða úr skuldum mínum og fullnægja þörfum mínum. Sérhver tunga hefur bor­ið valdi Þínu og yfir­ráð­um vitni og sér­hvert skiln­­ings­ríkt hjarta viður­kennt tign Þína og herra­dóm. Enginn er Guð nema Þú, sá sem heyrir og er reiðubúinn að svara.

-Bahá'u'lláh
-----------------------
Hjálp í mótlæti (#1674)

Lofaður og dýrlegur ert Þú, ó Guð minn! Ég bið Þig við andvörp ástvina Þinna og tár þeirra sem þrá að sjá Þig, að svipta mig ekki mildri miskunn Þinni á Þínum dögum né meina mér að hlýða á söngva dúfunnar, sem vegsamar einingu Þína frammi fyrir ljósinu sem skín frá ásýnd Þinni. Ég er þjáður, ó Guð! Lít mig halda fast við nafn Þitt, eigandi alls. Tortíming er mér vís, lít mig halda fast við nafn Þitt, hinn ótortímanlegi. Ég bið Þig við sjálfan Þig, hinn upphafna, hinn hæsta, að gefa mig ekki á vald mínu eigin sjálfi og ástríðum spilltrar hneigðar. Tak í hönd mína með hendi valds Þíns, frelsa mig úr afgrunni ímyndana og fánýts hugarburðar og hreinsa mig af öllu sem Þér er andstyggð.

Lát mig síðan leita heilshugar til Þín, setja allt traust mitt á Þig, leita á náðir Þínar og flýja til ásýndar Þinnar. Þú ert að sönnu sá sem gerir það sem Þér líst í krafti máttar Þíns og fyrirskipar með afli vilja Þíns hvaðeina sem Þú kýst. Enginn fær staðið í gegn framkvæmd ákvörðunar Þinnar, enginn breytir stefnunni sem Þú hefur markað. Þú ert í sannleika hinn almáttugi og aldýrlegi, hinn örlátasti.

-Bahá'u'lláh
-----------------------
Hjálp í mótlæti (#1675)

Er nokkur sá er firrir erfiðleikum nema Guð? Seg: Lof sé Guði, Hann er Guð! Allir eru þjónar Hans og allir lúta boðum Hans.

-Bábinn
-----------------------
Hjálp í mótlæti (#1676)

Seg: Guð nægir öllu framar öllu, og ekkert á himnum né jörðu nægir nema Guð. Sannlega er Hann í sjálfum sér, sá er þekkir, forsjá lífsins, hinn alvaldi.

-Bábinn
-----------------------
Hjálp í mótlæti (#1677)

Ó Drottinn! Þú ert sá, sem fjarlægir alla angist og flæmir á braut sérhverja þrengingu. Þú ert sá, sem gerir útlæga hverja sorg og leysir sérhvern bandingja, endurlausnari allra sálna. Ó Drottinn! Veit Þú lausn Þína sakir miskunnar Þinnar og tel mig með þeim þjónum Þínum, sem hlotnast hefur frelsun.

-Bábinn
-----------------------
Hjálp í mótlæti (#1678)

Ó Drottinn, Guð minn og athvarf mitt í nauð­um mínum! Skjöldur minn og skjól í ógæfu minni! Hæli mitt og höfn í þrengingum og félagi í einmanaleik mínum. Í kvíða huggun mín og ást­ríkur vinur í einveru. Þú eyðir sársauka sorgar minnar og fyrirgefur syndir mínar.

Til Þín eins leita ég og grátbæni Þig með hjarta, huga og tungu að vernda mig gegn öllu, sem er andstætt vilja Þínum í þessum heimi Þinnar guð­dómlegu einingar og hreinsa mig af allri saurgun, sem gæti aftrað mér frá að leita, flekklaus og hreinn, forsælunnar undir tré náðar Þinnar.

Miskunna, ó Drottinn, hinum lasburða, lækna hina sjúku og slökk hinn brennandi þorsta.

Gleð Þú hjartað, þar sem eldur kærleika Þíns brennur og tendra þar loga Þíns himneska kærleika og anda.

Skrýð Þú tjaldbúð guðdómlegrar einingar klæð­um heilagleikans og set á höfuð mér kórónu hylli Þinnar. Lýs Þú andlit mitt sólargeislum örlætis Þíns og aðstoða mig af náð Þinni að þjóna við Þína heilögu fótskör.

Lát hjarta mitt fyllast kærleika til allra sem Þú hefur skapað og gef að ég megi verða tákn mis­kunnsemi Þinnar og merki um náð Þína. Gef að ég megi efla samlyndi Þinna heittelskuðu, verða trúr Þér, minnast Þín í orðum mínum, gleyma sjálfum mér en ætíð vera minnugur þess sem er Þitt.

Ó Guð, Guð minn. Bein ekki frá mér hlýjum andvara fyrirgefningar Þinnar og náðar og tak ekki frá mér uppsprettu hjálpar Þinnar og hylli.

Lof mér að hverfa í skjól verndarvængja Þinna og lít á mig augum Þínum, sem allt vernda.

Leys tungu mína svo hún geti lofað nafn Þitt meðal fólks Þíns, að ég megi hefja rödd mína á miklum samkomum og frá vörum mínum megi streyma elfur hróðurs um Þig.

Þú ert í sannleika hinn náðugi og vegsamaði, hinn máttugi og alvaldi.

-`Abdu'l-Bahá
-----------------------
Hjálp í mótlæti (#1679)

Hann er hinn samúðarríki, sá sem allt gefur! Ó Guð, Guð minn! Þú sérð mig og þekkir mig, Þú ert hæli mitt og athvarf. Einskis hef ég leitað og einskis mun ég leita nema Þín. Enga leið hef ég farið og enga mun ég fara nema leið ástar Þinnar. Á dimmri nóttu örvæntingar lítur auga mitt í eftir væntingu og fullt vonar til morgunroða ótæmandi hylli Þinnar, og í dagrenningu hressist og styrkist döpur sál mín við minninguna um fegurð Þína og fullkomnun. Sá sem náð Þín og miskunn hjálpa verður að ómælishafi þótt hann sé ei nema dropi, og minnsta frumeind sem úthelling ástúðar Þinnar aðstoðar mun ljóma sem skínandi stjarna.

Skýl undir verndar væng Þínum, ó Þú andi hrein­­leika, Þú sem ert framfærandi sem öllum næg­ir, þessum gagntekna upptendraða þjóni Þín­um. Hjálpa honum í þessum tilveruheimi að vera staðfastur og einarður í ást Þinni, og gef að þessi vængbrotni fugl fái hæli og skjól í Þínu guðlega hreiðri í hinu himneska tré.

-`Abdu'l-Bahá
-----------------------
Hjálp í mótlæti (#1680)

Ó Drottinn minn, minn ástfólgni, þrá mín! Vertu vinur minn í einsemd minni og dvel hjá mér í útlegð minni. Tak burt sorg mína. Lát mig laðast að fegurð Þinni. Fjarlæg mig öllu nema Þér. Heilla mig með ilmi helgi Þinnar. Leyf mér að una samvistum við þá í ríki Þínu sem eru fráhverfir öllu nema Þér, þrá að þjóna við heilaga fótskör Þína og vinna að málstað Þínum. Gef að ég verði ein af þjónustumeyjum Þínum sem hafa öðlast velþóknun Þína. Vissulega ert Þú hinn náðugi og göfuglyndi.

-`Abdu'l-Bahá
-----------------------
Hjálp í mótlæti (#1681)

Ó Guð minn! Ó Guð minn! Ég er þjónn sem laðast að Þér. Af auðmýkt nálgast ég dyr eindar Þinnar og bið til ríkis miskunnar Þinnar. Ó Guð minn, leyf mér að tilheyra Þér af heilum huga, að hugsa aðeins um Þig, logandi af eldi ástar Þinnar, aðskilinn frá öllu nema Þér, svo ég fái unnið að málstað Þínum, útbreitt visku Þína, flutt þekkingu Þína og miðlað gleðinni af að þekkja Þig.

Ó Guð minn, ég er logi sem hendur valds Þíns hafa kveikt. Lát ekki þennan loga slokkna í mót­vindum prófrauna. Efl ást mína til Þín og aðdáun á fegurð eindar Þinnar. Kynd Þú bálið sem brennur innra með mér á Sínaí einstæðis Þíns, og vek eilífa lífið sem í mér blundar, með örlæti Þínu og náð.

Þú ert vörnin, verndarinn, hinn samúðarríki og miskunnsami.

-`Abdu'l-Bahá
-----------------------
Hjálp í mótlæti (#1682)

Ó Guð! Ó Guð! Þú sérð veikleika minn, smæð og auðmýkt frammi fyrir skepnum Þínum, samt hef ég reitt mig á Þig og hafist handa um að efla kenningar Þínar meðal staðfastra þjóna Þinna í trausti á vald Þitt og mátt!

Ó Drottinn! Ég er vængbrotinn fugl og þrái að svífa í Þínum takmarkalausa geimi. Hvernig er mér það fært nema með handleiðslu Þinni og náð, staðfestingu og aðstoð?

Ó Drottinn! Haf vorkunn með veikleika mínum og styrk mig með valdi Þínu. Ó Drottinn! Aumka Þig yfir getuleysi mitt og hjálpa mér af mætti Þínum og mikilleika.

Ó Drottinn! Ef andblær heilags anda staðfestir hina veikustu af skepnum Þínum, myndi hún öðlast allt sem hún sæktist eftir og eignast allt sem hún þráir. Vissulega hefur Þú aðstoðað þjóna Þína í fortíðinni. Og þótt þeir væru aumastir alls sem Þú hefur skapað, lægstir meðal þjóna Þinna og lítilsverðastir allra á jörðinni, sköruðu þeir vegna blessunar Þinnar og máttar fram úr hinum dýr­legustu og göfugustu meðal mannkyns. Þeir voru áður sem mölur en urðu konunglegir fálkar, áður eins og lækjarsytrur en urðu hafsjóir vegna veitinga Þinna og miskunnar. Með Þinni æðstu hylli urðu þeir stjörnur tindrandi við sjónarrönd leiðsagnar, fuglar sem sungu í rósagarði ódauðleikans, ljón öskrandi í skógum þekkingar og visku og stórhveli er syntu í úthöfum lífsins.

Vissulega ert Þú hinn mildi, hinn voldugi og mátt­ugi, og miskunnsamastur þeirra sem sýna mis­kunn.

-`Abdu'l-Bahá
-----------------------

Table of Contents: Albanian :Arabic :Belarusian :Bulgarian :Chinese_Simplified :Chinese_Traditional :Danish :Dutch :English :French :German :Hungarian :Íslenska :Italian :Japanese :Korean :Latvian :Norwegian :Persian :Polish :Portuguese :Romanian :Russian :Spanish :Swedish :Turkish :Ukrainian :