Dýrlegur ert Þú, ó Drottinn Guð minn. Ég bið Þig við Þína útvöldu, þá sem varðveita trúnað Þinn og þann sem Þú hefur gert að innsigli spámanna Þinna, að gera minningu Þína að félaga mínum, ást Þína að markmiði mínu, ásýnd Þína takmark mitt, nafn Þitt lampa minn, ósk Þína að þrá minni og velþóknun Þína unað minn.
Ég er syndari, ó Drottinn minn, og Þú ert sá sem ætíð fyrirgefur. Jafnskjótt og ég bar kennsl á Þig, hraðaði ég mér til upphafins forgarðs ástúðar Þinnar. Fyrirgef mér, ó Drottinn minn, syndir mínar sem hafa aftrað mér að ganga vegu velþóknunar Þinnar og ná til sjávarstranda einleika Þíns.
Það er enginn, ó Drottinn minn, sem getur sýnt mér veglyndi að ég geti beint augliti mínu til hans og enginn sem séð getur aumur á mér að ég megi leita sárbiðjandi á náðir hans. Varpa mér ekki, ég grátbæni Þig, frá návist náðar Þinnar og meina mér ekki um úthellingu örlætis Þíns og hylli. Ákvarða mér, ó Drottinn minn, það sem Þú hefur ákvarðað þeim sem elska Þig og rita niður fyrir mig það sem Þú hefur ritað niður fyrir Þína útvöldu. Auglit mitt hefur ætíð beinst að sjónarhring náðarsamlegrar forsjónar Þinnar og augu mín að forgarði mildrar miskunnar Þinnar. Ger við mig sem Þér sæmir. Enginn er Guð nema Þú, Guð valds, Guð dýrðar, sá sem allir sárbæna um hjálp.
-Bahá'u'lláhÉg er sá, ó Drottinn minn, sem hef beint augliti mínu að Þér og fest vonir mínar á undrum náðar Þinnar og opinberunum hylli Þinnar. Ég bið Þig að láta mig ekki hverfa vonsvikinn frá dyrum náðar Þinnar né gefa mig á vald þeim af skepnum Þínum sem hafa afneitað málstað Þínum.
Ég er, ó Guð minn, þjónn Þinn og sonur þjóns Þíns. Ég hef borið kennsl á sannleika Þinn á dögum Þínum og beint skrefum mínum til stranda einleika Þíns, játað einstæði Þitt, viðurkennt einingu Þína og vonast eftir fyrirgefningu Þinni og aflausn. Þú hefur vald til að gera það sem Þér þóknast. Enginn er Guð nema Þú, hinn aldýrlegi, sá sem ætíð fyrirgefur.
-Bahá'u'lláhÞú sérð mig, ó Drottinn minn, beina augliti mínu að himnaríki örlætis Þíns og úthafi hylli Þinnar, fráhverfan öllu nema Þér. Ég bið Þig við ljómann af sól birtingar Þinnar á Sínaí og geisladýrðina af ljóshnetti náðar Þinnar sem skín frá sjónbaug nafns Þíns, þess er ætíð fyrirgefur, að mér hlotnist miskunn Þín og fyrirgefning. Rita einnig niður fyrir mig með dýrðarpenna Þínum, það sem með nafni Þínu mun upphefja mig í heimi sköpunarinnar. Hjálpa mér, ó Drottinn minn, að leita til Þín og hlýða á rödd Þinna elskuðu, sem öflum jarðarinnar hefur ekki tekist að veikja og veldi þjóðanna ekki megnað að halda frá Þér og sem sagt hafa á leið sinni til Þín: „Guð er Drottinn okkar og Drottinn allra á himnum og jörðu!“
-Bahá'u'lláhDýrlegur ert Þú, ó Drottinn Guð minn! Í hvert sinn sem ég dirfist að nefna Þig aftra mér stórfelldar syndir mínar og hörmuleg yfirtroðsla gagnvart Þér og mér finnst ég gjörsamlega sviptur náð Þinni og fullkomlega vanmegna að vegsama Þig. Mikið traust mitt á örlæti Þínu vekur þó að nýju von um Þig og fullvissa mín um veglyndi Þitt gefur mér kjark til að lofa Þig og biðja um það sem er í eigu Þinni.
Ég sárbæni Þig, ó Guð minn, við náð Þína sem er æðri öllu sem skapað er og sem allir, sem umluktir eru hafdjúpum nafna Þinna bera vitni, að gefa mig ekki á vald mínu eigin sjálfi, því hjarta mitt hneigist til ills. Vernda mig því í virki Þínu og athvarfi umhyggju Þinnar. Ég er sá, ó Guð minn, sem óska þess eins sem Þú hefur ákvarðað í krafti máttar Þíns. Allt sem ég hef kosið sjálfum mér er að njóta hjálpar náðarsamlegra tilskipana Þinna og ákvörðunar vilja Þíns og fá fulltingi táknanna um ákvörðun Þína og dóm.
Ég bið Þig innilega, ó Þú ástvinur hjartnanna sem þrá Þig, við opinberendur málstaðar Þíns og dagsbrúnir innblásturs Þíns, boðbera tignar Þinnar og fjárhirslur þekkingar Þinnar að láta mig ekki fara á mis við Þín heilögu híbýli, musteri Þitt og tjaldbúð. Hjálpa mér, ó Drottinn, að komast til heilags forgarðs Hans, hringsóla um persónu Hans og standa auðmjúkur við dyr Hans.
Þú ert sá sem valdið hefur frá eilífð til eilífðar. Ekkert er dulið þekkingu Þinni. Þú ert sannlega Guð valds, Guð dýrðar og visku.
Lofaður sé Guð, Drottinn veraldanna!Lofað sé nafn Þitt, ó Guð minn og Guð alls sem er, dýrð mín og dýrð alls sem er, þrá mín og þrá alls sem er, styrkur minn og styrkur alls sem er, konungur minn og konungur alls sem er, eigandi minn og eigandi alls sem er, markmið mitt og markmið alls sem er, sá sem hreyfir við mér og hreyfir við öllu sem er. Ég sárbæni Þig um að halda mér ekki frá úthafi Þinnar mildu miskunnar né láta mig dveljast fjarri ströndum nálægðar við Þig.
Alls ekkert nema Þú, ó Drottinn minn, kemur mér að liði og aðgangur að öðrum en Þér sjálfum stoðar mig ekkert. Ég bið Þig við allsnægtir Þínar, sem Þú úthlutar öllum nema sjálfum Þér, að telja mig með þeim sem hafa beint augum til Þín og risið upp til að þjóna Þér.
Fyrirgef því, ó Drottinn minn, þjónum Þínum og þjónustumeyjum. Þú ert að sönnu sá er ætíð fyrirgefur, hinn samúðarfyllsti.
-Bahá'u'lláhÓ Guð, Guð minn. Náð Þín hefur fyllt mig hugrekki og réttlæti Þitt vakið mér ótta. Sæll er sá sem Þú hefur auðsýnt náð Þína og vei þeim er hlýtur dóm Þinn.
Drottinn. Ég hef flúið undan réttvísi Þinni og leitað náðar Þinnar, snúið undan reiði Þinni og sárbeðið fyrirgefningar. Ég bið til Þín við vald Þitt, yfirráð, dýrð og hylli, að uppljóma svo mannkynið með ljósi þekkingar Þinnar að alls staðar megi sjá handaverk Þín, hvarvetna birtist leyndardómar valds Þíns og allt opinberi ljós þekkingar Þinnar.
Þú ert sá sem grundvallaðir sköpunina og hefur lýst henni með ljósi umhyggju Þinnar og forsjár.
Þú ert sá sem allt gefur, hinn náðugi.Ó Guð, Drottinn okkar! Vernda okkur sakir náðar Þinnar gegn öllu, sem kann að vekja andúð Þína, og veit okkur það, sem sæmir Þér vel. Gef okkur enn ríflegar af örlæti Þínu og blessa okkur. Fyrirgef okkur það sem við höfum gert, hreinsa okkur af syndum okkar og veit okkur aflausn með mildri fyrirgefningu Þinni. Sannlega ert Þú hinn háleitasti, hinn sjálfumnógi.
Ástúðleg forsjón Þín hefur umlukið allt sem skapað er á himnum og jörðu og fyrirgefning Þín hefur yfirstigið alla sköpunina. Þitt er fullveldið og í höndum Þínum eru ríki sköpunar og opinberunar. Í hægri hendi Þinni heldur Þú öllu sem skapað er og í greip Þinni eru deildir verðir fyrirgefningar. Þú fyrirgefur þeim af þjónum Þínum, sem Þér þóknast. Sannlega ert Þú sá, sem ætíð fyrirgefur, sá sem allt elskar. Alls ekkert getur umflúið þekkingu Þína og ekkert er Þér dulið.
Ó Guð, Drottinn okkar! Vernda okkur með mætti afls Þíns, ger okkur kleift að ganga inn í undursamlegt, svellandi úthaf Þitt og veit okkur það, sem sæmir Þér vel.
Þú ert æðsti stjórnandinn, gerandinn máttugi, hinn upphafni, sá sem allt elskar.
-BábinnLof sé Þér, ó Drottinn. Fyrirgef syndir okkar, auðsýn okkur miskunn og ger okkur fært að snúa aftur til Þín. Lát okkur ekki treysta á neitt nema Þig og miðla okkur af örlæti Þínu því sem Þú elskar og þráir og sæmir Þér vel. Ger háleita stöðu þeirra, sem hafa trúað í sannleika og fyrirgef þeim af náðarríkri fyrirgefningu Þinni. Sannlega ert Þú hjálpin í nauðum, hinn sjálfumnógi.
-BábinnÉg bið Þig að fyrirgefa mér, ó Drottinn minn, alla minningu nema minninguna um Þig, alla lofgjörð nema lofgjörð til Þín, allan unað nema unaðinn af návist Þinni, alla ánægju nema ánægjuna af samneyti við Þig, allan fögnuð nema fögnuð ástar Þinnar og velþóknunar og allt sem mér tilheyrir en ekki tilheyrir Þér, ó Þú sem ert Drottinn drottna, sá sem opnar dyrnar og gerir leiðirnar greiðfærar.
-BábinnDýrð sé Þér, ó Guð. Hvernig get ég nefnt Þig þegar Þú ert helgaður yfir lofgjörð alls mannkyns. Miklað sé nafn Þitt, ó Guð, Þú ert konungurinn, sannleikurinn eilífi. Þú veist hvað er á himnum og jörðu og til Þín verða allir að hverfa aftur. Þú hefur sent niður guðlega ákvarðaða opinberun Þína í samræmi við skýran mælikvarða. Lofaður sért Þú, ó Drottinn! Að boði Þínu gerir Þú hvern sem Þér þóknast sigursælan með herskörum himins og jarðar og alls sem þar er á milli. Þú ert yfirbjóðandinn, sannleikurinn eilífi, Drottinn ósigrandi valds. Dýrð sé Þér, ó Drottinn, Þú fyrirgefur ævinlega syndir þeirra sem biðja Þig um aflausn. Hreinsa mig af syndum mínum og þá sem leita fyrirgefningar Þinnar í dögun, sem biðja til Þín að degi til og að næturþeli, sem þrá ekkert nema Guð og fórna öllu sem Guð hefur náðarsamlega gefið þeim, sem færa Þér lof kvölds og morgna og vanrækja ekki skyldur sínar.
-BábinnÓ Þú vorkunnláti Drottinn! Þú ert athvarf öllum þessum þjónum Þínum. Þú þekkir leyndarmálin og ekkert fer framhjá Þér. Öll erum við hjálpar vana og Þú ert hinn máttugi og alvoldugi. Öll erum við syndug og Þú ert sá sem fyrirgefur syndir, hinn miskunnsami og samúðarríki. Ó Drottinn! Lít ekki á vankanta okkar. Ger við okkur samkvæmt náð Þinni og veglyndi. Vankantar okkar eru margir en úthaf fyrirgefningar Þinnar takmarkalaust. Veikleiki okkar er hörmulegur, en tákn hjálpar Þinnar og aðstoðar auðsæ. Veit okkur því styrk og staðfestu. Ger okkur kleift að inna það af höndum sem er verðugt heilagri fótskör Þinni. Uppljóma hjörtu okkar. Gef okkur skýra sjón og næma heyrn. Endurlífga dauða og lækna sjúka. Auðga snauða og veit óttaslegnum öryggi og frið. Veit okkur viðtöku í ríki Þínu og uppljóma okkur með ljósi leiðsagnar. Þú ert hinn voldugi og alvaldi. Þú ert hinn göfugi og mildi. Þú ert hinn gæskuríki.
-`Abdu'l-Bahá