Vegsamaður ert Þú, ó Drottinn Guð minn! Ég sárbæni Þig við stríða vinda náðar Þinnar og þá sem eru geislarnir af morgni áforms Þíns og uppsprettur innblásturs Þíns, að senda yfir mig og alla sem leitað hafa ásjónu Þinnar, það sem sæmir veglyndi Þínu og örlátri náð og hæfir gjöfum Þínum og hylli. Ég er fátækur og vansæll, ó Drottinn minn! Sökk Þú mér í úthaf auðæfa Þinna. Mig þyrstir. Lát mig drekka af lifandi lindum ástúðar Þinnar.
Ég bið Þig í auðmýkt við Þitt eigið sjálf og þann sem Þú hefur útnefnt til að birta öllum á himnum og jörðu Þína eigin veru og Þitt sundurgreinandi orð, að safna saman þjónum Þínum í forsælunni af tré Þinnar náðarríku forsjár. Hjálpa þeim einnig að neyta af ávöxtum þess að hlýða á þytinn í laufi þess og hljómfegurð fuglsins sem syngur í greinum þess. Þú ert vissulega hjálpin í nauðum, hinn ótilkvæmilegi og almáttugi, hinn örlátasti.
-Bahá'u'lláhÓ Þú miskunnsami Guð! Ó Þú sem ert máttugur og voldugur! Ó Þú gæskuríkasti faðir! Þessir þjónar Þínir hafa komið saman og leitað til Þín, biðja til fótskarar Þinnar, óska eftir takmarkalausri hylli Þinni frá Þinni voldugu fullvissu. Þeir hafa ekkert áform annað en velþóknun Þína, ætla sér ekkert nema að þjóna mannheimi.
Ó Guð! Ger þennan fund geislandi. Ger hjörtun miskunnsöm. Veit hylli heilags anda. Miðla þeim krafti frá himnum. Blessa þá með himnesku hugarfari. Auk einlægni þeirra svo þeir megi, fullir auðmýktar og iðrunar, leita til ríkis Þíns og festa hugann við þjónustu við mannheim. Megi hver og einn verða skínandi kerti. Megi hver og einn verða tindrandi stjarna. Megi hver og einn verða fagurleitur og veita ljúfum ilmi í ríki Guðs.
-`Abdu'l-BaháÓ Þú góði Drottinn! Þetta eru þjónar Þínir, samankomnir á þessum fundi. Þeir hafa leitað til ríkis Þíns og þarfnast veitinga Þinna og blessana. Ó Þú Guð! Birt og ger auðsæ tákn eindar Þinnar sem búa í öllum veruleika lífsins. Opinbera og afhjúpa þær dyggðir sem Þú hefur fólgið í þessum mannlega veruleika.
Ó Guð! Við erum sem gróður og gjafir Þínar sem regn. Lífga þennan gróður og lát hann vaxa með veitingum Þínum. Við erum þjónar Þínir, losa okkur úr fjötrum efnislegrar tilveru. Við erum fávís, ger okkur vitur. Við erum andvana, endurlífga okkur. Við erum efnisleg, miðla okkur anda. Við erum afskipt, treyst okkur fyrir leyndardómum Þínum. Við erum þurfandi, auðga okkur og blessa með Þínum takmarkalausa fjársjóði. Ó Guð! Endurvek okkur, gef okkur sjón, fær okkur heyrn, lát okkur kynnast leynidómum lífsins, svo að leyndarmál ríkis Þíns megi birtast okkur í þessari tilvist og við getum viðurkennt eind Þína. Sérhver gjöf kemur frá Þér, sérhver blessun er Þín.
Þú ert máttugur. Þú ert voldugur. Þú ert gjafarinn, hinn veglyndi.
-`Abdu'l-BaháÓ Guð minn! Ó Guð minn! Vissulega leita þessir þjónar Þínir til Þín og biðja til ríkis miskunnar Þinnar. Sannlega laðast þeir að heilagleika Þínum og eru upptendraðir af eldi ástar Þinnar. Þeir leita staðfestingar frá undursamlegu ríki Þínu og vonast eftir inngöngu í Þinn himneska heim. Vissulega þrá þeir gjafir Þínar og óska sér uppljómunar frá sól veruleikans. Ó Drottinn! Ger þá skínandi lampa, líknandi tákn, frjósöm tré og tindrandi stjörnur. Megi þeir ganga fram í þjónustu Þinni, tengjast Þér böndum kærleika Þíns og þrá birtu örlætis Þíns. Ó Drottinn! Ger þá að táknum handleiðslu Þinnar, gunnfána ódauðlegs ríkis Þíns, bylgjur á hafi miskunnar Þinnar og lát þá endurspegla birtu tignar Þinnar. Vissulega ert Þú hinn veglyndi. Vissulega ert Þú hinn miskunnsami. Vissulega ert Þú hinn hjartfólgni og elskaði.
-`Abdu'l-BaháÓ Þú Guð sem fyrirgefur! Þessir þjónar Þínir leita til ríkis Þíns og leita örlætis og náðar Þinnar. Ó Guð! Ger hjörtu þeirra góð og hrein svo þeir verðskuldi ást Þína. Hreinsa og helga anda þeirra svo að sól raunveruleikans skíni á þá. Hreinsa og helga augun svo þau greini ljós Þitt. Hreinsa og helga eyrun svo þau heyri kall ríkis Þíns.
Ó Drottinn, vissulega erum við veikburða en Þú ert máttugur. Vissulega erum við fátæk en Þú ert ríkur. Við erum leitendur en Þú ert sá sem leitað er. Ó Drottinn! Haf samúð með okkur og fyrirgef okkur. Gef okkur slíka getu og næmni að við megum teljast verðug hylli Þinnar og löðumst að ríki Þínu, að við getum teygað af vatni lífsins, upptendrast af eldi ástar Þinnar og endurlífgast af andblæ heilags anda á þessari geislandi öld.
Ó Guð, Guð minn! Lít þessa samkomu augum ástúðar Þinnar. Varðveit hvern og einn óhultan í umsjá Þinni og vernd. Send yfir þessar sálir himneskar blessanir Þínar. Sökk þeim í úthaf miskunnar Þinnar og fjörga þær með andvara heilags anda.
Ó Drottinn! Veit þessari réttlátu ríkisstjórn náðuga hjálp Þína og staðfestingu. Land þetta er í forsælu verndar Þinnar og þjóðin í Þinni þjónustu. Ó Drottinn! Veit henni himneskar gjafir Þínar og úhell yfir hana mikilli náð Þinni og hylli. Gef að þessi ágæta þjóð njóti sæmdar og hjálpa henni að hljóta inngöngu í ríki Þitt.
Þú ert hinn voldugi, hinn alvaldi og miskunnsami og Þú ert hinn örláti, hinn gæskuríki, Drottinn ríkulegrar náðar.
-`Abdu'l-BaháÓ himneska forsjón! Á þessari samkomu eru vinir Þínir sem laðast að fegurð Þinni og brenna af eldi ástar Þinnar. Ger þessar sálir að himneskum englum, endurlífga þær með andblæ heilags anda, gef þeim mælska tungu og einörð hjörtu. Veit þeim himneskt afl og miskunnsamar kenndir, lát þær útbreiða einingu mannkyns og verða uppsprettu ástar og samstillingar í mannheimi svo að skaðlegt myrkur fáfræði og fordóma megi hverfa fyrir ljósinu frá sól sannleikans, þessi dapri heimur upplýsast, þetta efnislega ríki drekka í sig geislana frá heimi andans, þessir ýmsu litir verða eitt og söngur lofgerðar rísa til ríkis heilagleika Þíns.
Sannlega ert Þú hinn almáttugi og alvaldi.