Announcing: BahaiPrayers.net


More Books by bænir

Andleg lausn
Andleg ráð
Andlegir eiginleikar
Aukadagarnir
Aðstoð
Bahá’í bænir-Íslenska
Bænir fyrir látnum
Börn og unglingar
Eining
Eldtaflan
Erfiðleikar og mótlæti
Fastan
Fjölskyldur
Fundir
Fyrirgefning
Græðing
Hjálp í mótlæti
Hjónaband
Kennsla og þjónusta
Kvöldbænir
Lengri skyldubænin
Lengsta skyldubænin
Lofgjörð og þökk
Mannkynið
Miskunn
Morgunbænir
Naw-Rúz
Réttur Guðs
Sigur málstaðarins
Sjóðurinn
Staðfesta
Stutta skyldubænin
Sáttmálinn
Tafla Ahmads
Tafla Hins heilaga sæfara
Vernd
Vitjunartafla
Free Interfaith Software

Web - Windows - iPhone








bænir : Eldtaflan
Eldtaflan (#1763)
Í nafni Guðs, hins aldna, hins æðsta.

Sannlega brenna hjörtu hinna hreinlunduðu í eldi aðskilnaðar: Hvar er glampinn af ljósi ásýndar þinnar, ó ástvinur veraldanna?

Þeir, sem eru nálægir þér, eru yfirgefnir í myrkri auðnarinnar: Hvar bjarmar af morgni endurfundanna við þig, ó þrá veraldanna?

Líkamar þinna útvöldu liggja skjálfandi á fjörrum söndum: Hvar er haf návistar þinnar, ó þú, sem heillar veraldirnar?

Löngunarfullar hendur teygja sig til himins miskunnar þinnar og örlætis: Hvar er regn gjafa þinna, ó þú, sem bænheyrir veraldirnar?

Hinir trúlausu rísa í harðýðgi á alla veg: Hvar er knýjandi afl yfirbjóðandi penna þíns, ó sigurvegari veraldanna?

Hundgáin glymur allt í kring: Hvar er ljónið í skógi máttar þíns, ó þú sem hirtir veraldirnar?

Kuldinn hefur læst sig um mannkynið: Hvar er hiti ástar þinnar, ó bál veraldanna?

Ógæfan er í algleymingi: Hvar eru tákn fulltingis þíns, ó lausn veraldanna?

Myrkrið hefur umlukið flestar þjóðir: Hvar er bjarminn af dýrð þinni, ó ljómi veraldanna?

Hálsar mannanna eru framteygðir í meinsemi: Hvar eru sverð hefndar þinnar, ó eyðandi veraldanna?

Lægingin hefur náð sínum neðstu mörkum: Hvar eru jartein dýrðar þinnar, ó dýrð veraldanna?

Sorgir hrjá opinberanda nafns þíns, hins almiskunnsama: Hvar er fögnuður dagseldingar opinberunar þinnar, ó unaður veraldanna?

Angist hefur gripið allar þjóðir jarðarinnar: Hvar eru teikn gleði þinnar, ó fögnuður veraldanna?

Þú lítur dagsbrún tákna þinna hjúpaða illum getsökum: Hvar eru fingur máttar þíns, ó vald veraldanna?

Sár þorsti sækir alla menn: Hvar er elfur örlætis þíns, ó miskunn veraldanna?

Ágirndin hefur fjötrað allt mannkynið: Hvar eru holdtekjur andlegrar lausnar, ó Drottinn veraldanna?

Þú lítur þennan rangtleikna einmana í útlegð: Hvar eru hersveitirnar frá himni skipunar þinnar, ó höfðingi veraldanna?

Ég er yfirgefinn í ókunnu landi: Hvar eru tákn trúfesti þinnar, ó trúnaður veraldanna?

Kvöl dauðans heldur í greip sinni öllum mönnum: Hvar er ólgandi haf þíns eilífa lífs, ó líf veraldanna?

Launskrafi Satans hefur verið andað í eyra sérhverrar skepnu: Hvar er vígahnöttur elds þíns, ó ljós veraldanna?

Ölvun ástríðunnar hefur afmyndað flesta menn: Hvar eru dagsbrúnir hreinleika þíns, ó þrá veraldanna?

Þú lítur þennan rangtleikna hjúpaðan áþján meðal Sýrlendinga: Hvar er ljómi dagseldingar þinnar, ó ljós veraldanna?

—Þú sérð mér varnað máls: Hvaðan munu þá berast söngvar þínir, ó næturgali veraldanna?

Flestir menn eru huldir blæjum hégóma og fánýtra ímyndana. Hvar eru málsvarar vissu þinnar, ó fullvissa veraldanna?

Bahá er að drukknun komin í hafi þrenginganna: Hvar er lausnarörk þín, ó lausnari veraldanna?

Þú sérð dagselding orða þinna í svartnætti sköpunarinnar: Hvar er sólin á himni náðar þinnar, ó þú, sem upplýsir veraldirnar?

Lampar sannleika og hreinleika, heiðurs og hollustu, hafa verið slökktir: Hvar eru jartein hefnandi reiði þinnar, ó þú, sem hrærir veraldirnar?

Sérð þú nokkurn sem lagt hefur sjálfi þínu lið eða hugleiðir hlutskipti hans á vegi ástar þinnar? Nú stöðvast penni minn, ó ástvinur veraldanna.

Greinar hins himneska lótusviðar liggja brotnar fyrir forlagabyljum: Hvar eru fánar fulltingis þíns, ó kappi veraldanna?

Þessi ásjóna er hulin dusti illmælginnar: Hvar er andblær meðaumkvunar þinnar, ó miskunn veraldanna?

Hinir svikulu hafa saurgað kyrtil helgunarinnar: Hvar er skrúði heilagleika þíns, ó þú, sem skrýðir veraldirnar?

Miskunnsemdanna haf hefur hljóðnað sakir þess sem hendur mannanna hafa gert: Hvar eru öldur örlætis þíns, ó þrá veraldanna?

Kúgun óvina þinna hefur læst dyrunum að hinni guðdómlegu návist: Hvar er lykill gjafa þinna, ó þú, sem opnar veraldirnar?

Laufin hafa sölnað fyrir eitruðum gjósti undirróðurs: Hvar er úrhellið úr skýjum gjafmildi þinnar, ó gjafari veraldanna?

Alheimurinn hefur myrkvast af dusti syndarinnar: Hvar er andvari fyrirgefningar þinnar, ó fyrirgefandi veraldanna?

Þessi æskumaður er einmana í auðnarlandi: Hvar er regn himneskrar náðar þinnar, ó veitandi veraldanna?

Ó æðsti penni, frá ríkinu eilífa höfum vér heyrt ljúfast ákall þitt: Ljá eyra því sem tunga tignarinnar mælir, ó rangtleikni veraldanna!

Ef eigi væri kuldinn hvernig fengi hiti orða þinna sigrað, ó skýrandi veraldanna?

Ef eigi væri ógæfan, hvernig gæti sól þrautseigju þinnar skinið, ó ljós veraldanna?

Kveina eigi vegna hinna syndugu, þú varst skapaður til að þola og standast, ó þolgæði veraldanna.

Hve ljúf var dögun þín á sjónarrönd sáttmálans meðal undirróðursmannanna og þrá þín eftir Guði, ó ást veraldanna.

Vegna þín var merki sjálfstæðisins reist á hæstu tindum og haf örlætisins brimaði, ó sæla veraldanna.

Sakir einsemdar þinnar skein sól einleikans og sakir útlegðar þinnar skrýddist land einingarinnar. Ver þolinmóður, ó þú útlagi í veröldunum.

Vér höfum gert læginguna að dýrðarklæðum og þjáninguna að skarti musteris þíns, ó stolt veraldanna.

Þú lítur hjörtun full af hatri og þitt er að umbera, ó þú, sem hylur syndir veraldanna.

Þegar sverðin glampa, gakk áfram! Þegar spjótin fljúga, sæk fram! Ó þú fórn veraldanna.

Kveinar þú, eða á ég að kveina? Fremur skyldi ég gráta fæð kappa þinna, ó þú sem veraldirnar kveina yfir.

Vissulega hef ég heyrt kall þitt, ó aldýrlegi ástvinur; og nú brennur ásjóna Bahá af hita þjáninganna og eldi skínandi orðs þíns og hann hefur risið upp í trúfesti á fórnarstaðnum og leitar velþóknunar þinnar, ó yfirbjóðandi veraldanna.

Ó Alí-Akbar, þakka þú Drottni þínum fyrir þessa töflu, sem ber þér ilm auðmýktar minnar, og vit hvað fallið hefur oss í skaut á vegi Guðs, hins dásamaða allra veraldanna.

Ef allir þjónarnir lesa og hugleiða þetta, verður glæddur eldur í æðum þeirra, sem tendra mun bál í veröldunum.

-Bahá'u'lláh
-----------------------

Table of Contents: Albanian :Arabic :Belarusian :Bulgarian :Chinese_Simplified :Chinese_Traditional :Danish :Dutch :English :French :German :Hungarian :Íslenska :Italian :Japanese :Korean :Latvian :Norwegian :Persian :Polish :Portuguese :Romanian :Russian :Spanish :Swedish :Turkish :Ukrainian :