*(Bæn fyrir látnum er lesin fyrir bahá’ía eldri en 15 ára. „Þetta er eina bahá’í skyldubænin sem lesa á í hóp. Einn átrúandi annast lesturinn en viðstaddir rísi á fætur og standi á meðan lesið er. Ekki er skylda að snúa til Qiblih (í bænarátt, til Bahjí) meðan bænin er lesin.“ —Yfirlit og skráning laganna í Kitáb-i-Aqdas)
Guð minn! Þetta er þjónn Þinn og sonur þjóns Þíns sem hefur trúað á Þig og tákn Þín og beint til Þín augliti sínu, fullkomlega fráhverfur öllu nema Þér. Þú ert í sannleika miskunnsamastur þeirra sem sýna miskunn.
Ger við hann, ó Þú sem fyrirgefur syndir mannanna og hylur misgerðir þeirra, eins og sæmir himni hylli Þinnar og úthafi náðar Þinnar. Leyf honum að ganga inn til sviða yfirskilvitlegrar náðar Þinnar sem var fyrir sköpun himins og jarðar. Enginn er Guð nema Þú, sá sem ætíð fyrirgefur, hinn veglyndasti.
*Síðan endurtaki hann sex sinnum kveðjuna Alláh-u-Abhá og hafi síðan nítján sinnum yfir sérhvert eftirfarandi ritningarorða:*
Sannlega tilbiðjum við öll Guð.* *Kveðjan Alláh-u-Abhá er lesin einu sinni á undan hverju ritningarorði en hvert ritningarorð er endurtekið nítján sinnum.
*(Ef hinn látni er kona, segi sá sem les: „Þetta er þjónustumey Þín og dóttir þjónustumeyjar Þinnar, o.s.frv.)
-Bahá'u'lláhDýrð sé Þér, ó Drottinn Guð minn! Niðurlæg ekki þann sem Þú hefur upphafið með valdi eilífra yfirráða Þinna og lát þann ekki vera fjarlægan Þér sem Þú hefur látið ganga inn í tjaldbúð eilífðar Þinnar. Munt Þú varpa frá Þér, ó Guð minn, þeim sem Þú hefur yfirskyggt með drottnun Þinni og munt Þú snúa þeim frá Þér, ó þrá mín, sem Þú hefur verið athvarf? Getur Þú lítiðlækkað þann sem Þú hefur upphafið eða gleymt þeim sem Þú gerðir kleift að muna Þig?
Dýrlegur, ómælanlega dýrlegur ert Þú! Þú er sá sem frá eilífu hefur verið konungur allrar sköpunar og frumkraftur hennar og Þú munt að eilífu vera Drottinn allra sem skapaðir eru og yfirbjóðandi þeirra. Dýrlegur ert Þú, ó Guð minn! Ef Þú hættir að sýna þjónum Þínum miskunn, hver á þá að sýna þeim miskunn? Og ef Þú neitar að hjálpa Þínum elskuðu, hver getur þá hjálpað þeim?
Dýrlegur, ómælanlega dýrlegur ert Þú! Þú ert vegsamaður í sannleika Þínum og sannlega erum við öll tilbiðjendur Þínir; og Þú hefur birst í réttlæti Þínu og Þér berum við í sannleika öll vitni. Þú ert að sönnu elskaður í náð Þinni. Enginn er Guð nema Þú, hjálpin í nauðum, hinn sjálfumnógi.
-Bahá'u'lláhHann er Guð, upphafinn er Hann, Drottinn ástúðar og örlætis!
Dýrð sé Þér, ó Þú Guð minn, Drottinn alvaldur. Ég ber vitni almætti Þínu, yfirráðum og ástúð, náð Þinni og valdi, eind verundar Þinnar og einingu kjarna Þíns, heilagleik Þínum og upphafningu yfir þessa tilveru og allt sem þar er að finna.
Ó, Guð minn! Þú lítur mig fráhverfan öllu nema Þér, halda fast við Þig og leita til úthafs gjafmildi Þinnar, himins hylli Þinnar og sólar náðar Þinnar.
Drottinn! Ég ber því vitni, að í þjón Þinn hefur Þú lagt vörslufé Þitt, og það er sá andi, sem Þú hefur lífgað með veröldina. Ég bið Þig við dýrðarljómann frá sól opinberunar Þinnar að veita náðarsamlega viðtöku því sem hann hefur til leiðar komið á dögum Þínum. Gef því, að honum veitist dýrð velþóknunar Þinnar og skrýðist viðtöku Þinni.
Ó, Drottinn minn! Ég sjálfur og allt sem skapað er ber vitni mætti Þínum, og ég bið Þig að snúa ekki frá Þér þessum anda, sem stigið hefur upp til Þín, til Þíns himneska dvalarstaðar, Þinnar háleitu paradísar og athvarfs návistar Þinnar, ó Þú sem ert Drottinn allra manna! Gef því, ó Guð minn, að þjónn Þinn megi samneyta Þínum útvöldu, dýrlingum Þínum og sendiboðum á himneskum stöðum, sem penninn getur eigi lýst né tungan sagt frá.
Ó, Drottinn minn, hinn fátæki hefur sannlega hraðað för sinni til ríkis auðlegðar Þinnar, hinn ókunni til heimilis síns innan mæra Þinna, hinn þyrsti til guðdómlegs fljóts örlætis Þíns. Svipt hann eigi, ó Drottinn, skerfi sínum af nægtaborði náðar Þinnar og hylli örlætis Þíns. Þú ert í sannleika hinn almáttugi og miskunnsami, sá sem allt gefur.
Ó, Guð minn! Vörslufé Þínu hefur verið skilað aftur til Þín.
Það sæmir miskunn Þinni og örlæti sem hefur umlukið ríki Þín á himni og jörðu að veita þessum aufúsugesti Þínum gjafir Þínar og nægtir og ávextina af tré náðar Þinnar!
Þú ert þess megnugur að gera það sem Þér þóknast. Enginn er Guð nema Þú, hinn náðugi og örlátasti, hinn vorkunnláti, gjafarinn, fyrirgefandinn, hinn dýrmæti og alvitri.
Ég ber því vitni, ó Drottinn minn, að Þú hefur boðið mönnunum að heiðra gesti sína, og hann sem hefur stigið upp til Þín hefur vissulega náð til Þín og komist í návist Þína. Ger því við hann það sem sæmir náð Þinni og hylli! Við dýrð Þína, ég veit með vissu, að Þú munt ekki sjálfur ganga í gegn því sem Þú hefur boðið þjónum Þínum né heldur láta þann afskiptan, sem heldur föstu taki í taug örlætis Þíns og hefur stigið upp til dagsbrúnar auðæfa Þinna.
Enginn er Guð nema Þú, hinn eini og einstæði, hinn voldugi og alvitri, hinn gjafmildi.
-Bahá'u'lláhÓ Guð minn. Ó Þú, sem fyrirgefur syndir okkar, gefur okkur gjafir, eyðir sorgum okkar. Sannlega bið ég Þig að fyrirgefa syndir þeirra, sem hafa yfirgefið jarðneska líkama sína og haldið til æðri heims.
Ó Drottinn minn, hreinsa þá af misgjörðum, dreif sorg þeirra og snú myrkri þeirra í ljós. Lát þá ganga í garð hamingjunnar, lauga þá með tærasta vatni og gef að þeir megi líta dýrð Þína á hinu hæsta fjalli.
-`Abdu'l-BaháÓ Guð minn! Ó Guð minn! Vissulega hefur þjónn Þinn, auðmjúkur frammi fyrir tign Þíns himneska fullveldis og undirgefinn við dyr einleika Þíns, trúað á Þig og ritningar Þínar, borið orði Þínu vitni, upptendrast af eldi ástar Þinnar, sokkið í hafdjúp þekkingar Þinnar, laðast að andvara Þínum, treyst á Þig, beint til Þín augliti sínu, beðið til Þín og fengið fullvissu um fyrirgefningu Þína og aflausn. Hann hefur yfirgefið þetta dauðlega líf, flogið til ríkis ódauðleikans og þráð þá hylli að komast á fund Þinn.
Ó Drottinn! Ger stöðu hans dýrlega, skýl honum undir tjaldhimni æðstrar miskunnar Þinnar, lát hann ganga inn í dýrlega paradís Þína og gef honum eilíft líf í upphöfnum rósagarði Þínum, svo hann megi sökkvast í úthaf ljóssins í heimi leyndardóma.
Vissulega ert Þú hinn örláti og voldugi, fyrirgefandinn og veitandinn
-`Abdu'l-BaháÞótt sumar sálir hafi eytt æfi sinni í fáfræði og orðið firringu og mótþróa að bráð, verða allir sem fallnir voru í synd frelsaðir með einni öldu á úthafi fyrirgefningar Þinnar. Hvern sem Þú vilt gerir Þú að trúnaðarvini og sá sem ekki verður fyrir vali Þínu telst misgerðarmaður. Ef Þú gerðir við okkur samkvæmt réttlæti Þínu værum við öll ekkert nema syndarar og verðskulduðum höfnun Þína. En ef Þú sýndir miskunn yrði sérhver syndari gerður flekklaus og sérhver framandi maður að vini. Veit því fyrirgefningu Þína og aflausn og sýn öllum miskunn Þína.
Þú ert fyrirgefandinn, ljósgjafinn, hinn alvaldi.