Announcing: BahaiPrayers.net


More Books by bænir

Andleg lausn
Andleg ráð
Andlegir eiginleikar
Aukadagarnir
Aðstoð
Bahá’í bænir-Íslenska
Bænir fyrir látnum
Börn og unglingar
Eining
Eldtaflan
Erfiðleikar og mótlæti
Fastan
Fjölskyldur
Fundir
Fyrirgefning
Græðing
Hjálp í mótlæti
Hjónaband
Kennsla og þjónusta
Kvöldbænir
Lengri skyldubænin
Lengsta skyldubænin
Lofgjörð og þökk
Mannkynið
Miskunn
Morgunbænir
Naw-Rúz
Réttur Guðs
Sigur málstaðarins
Sjóðurinn
Staðfesta
Stutta skyldubænin
Sáttmálinn
Tafla Ahmads
Tafla Hins heilaga sæfara
Vernd
Vitjunartafla
Free Interfaith Software

Web - Windows - iPhone








bænir : Andlegir eiginleikar
Andlegir eiginleikar (#1585)

Gef mér að drekka af ilmsætum straumi eilífðar Þinnar, ó Guð minn. Og ger mér fært að bragða á ávöxtunum á tré verundar Þinnar, ó von mín. Leyf mér að teyga af kristaltærum lindum ástar Þinnar, ó dýrð mín. Og leyf mér að hvílast í forsælunni af eilífri umhyggju Þinni, ó ljós mitt. Leyf mér að reika á völlum návista við Þig frammi fyrir augliti Þínu, ó minn ástfólgni. Og set mig til hægri handar hásætis miskunnar Þinnar, ó þrá mín. Lát leika um mig blæ af ilmsætum andvara fagn­aðar Þíns, ó takmark mitt. Og veit mér inn­göngu á hæðir paradísar veruleika Þíns, ó minn dáði. Leyf mér að hlýða á söngvana, sem dúfa einingar Þinnar kurrar, ó Þú hinn skínandi. Og lífga mig með anda valds Þíns og máttar, ó forsjón mín. Ger mig staðfastan í anda ástar Þinnar, ó hjálp mín. Og ger mig stöðugan á vegi velþóknunar Þinnar, ó skapari minn. Lát mig dvelja að eilífu í garði ódauðleika Þíns frammi fyrir ásýnd Þinni, ó Þú sem ert mér miskunnsamur. Og staðfest mig í dýrðarsessi Þínum, ó Þú sem ert eigandi minn. Lyft mér upp til himins ástúðar Þinnar, ó lífgjafi minn. Og leið mig til sólar handleiðslu Þinnar, ó Þú sem heillar mig. Kveð Þú mig fram fyrir opin­berun Þíns ósýnilega anda, Þú sem ert upphaf mitt og æðsta ósk. Og lát mig leita aftur til ilmkjarna fegurðar Þinnar, sem Þú munt birta, ó Þú sem ert Guð minn.

Þú ert þess megnugur að gera það sem Þér þókn­ast. Þú ert vissulega hinn háleitasti, hinn al­dýrlegi, hinn alhæsti.

-Bahá'u'lláh
-----------------------
Andlegir eiginleikar (#1586)

Skapa í mér hreint hjarta, ó Guð minn, og end­ur­nýja kyrrláta samvisku í mér, ó von mín. Staðfest mig með anda máttarins í málstað Þínum, ó minn ástfólgni, og lýs mér veg Þinn með ljósi dýrðar Þinnar, ó takmark þrár minnar. Lyft mér upp til himins heilagleika Þíns með afli yfir­skil­vitlegs máttar Þíns, ó uppspretta verundar minnar, og gleð mig með andblæ eilífðar Þinnar, ó Þú sem ert Guð minn. Lát eilíf söngljóð Þín færa mér ró, ó félagi minn, lát ríkidæmi aldinnar ásýndar Þinnar leysa mig frá öllu nema Þér, ó meistari minn, og lát tíðindin um opinberun Þíns ólýtanlega kjarna færa mér fögnuð, ó Þú, sem ert raunverulegastur alls hins raunverulega og huldastur alls hins hulda.

-Bahá'u'lláh
-----------------------
Andlegir eiginleikar (#1587)
Hann er hinn náðugi og veglyndi.

Ó Guð, Guð minn! Kall Þitt hefur heillað mig og rödd dýrðar penna Þíns vakið mig. Straum­ur heilagra orða Þinna hefur hrifið mig og vín inn­blásturs Þíns gert mig hugfanginn. Þú sérð mig, ó Drottinn, fráhverfan öllu nema Þér, halda í líftaug hylli Þinnar og þrá undur náðar Þinnar. Ég bið Þig við eilífar öldur ástúðar Þinnar og skínandi ljós blíðrar umhyggju Þinnar og hylli að veita það sem laðar mig nær Þér og auðgar mig af ríkidæmi Þínu. Tunga mín, penni, öll verund mín ber vitni valdi Þínu, mætti, náð og hylli, að Þú ert Guð og enginn er Guð nema Þú, hinn voldugi og máttugi.

Ég ber vitni á þessu andartaki, ó Guð minn, hjálp­­arleysi mínu og yfirráðum Þínum, valdi Þínu og vanmætti mínum. Ég veit ekki hvað skaðar mig né kemur mér að gagni; Þú ert sannlega hinn alvitri og alvísi. Ákvarða mér það, ó Drottinn Guð minn og meistari minn, sem sættir mig við eilífa ákvörð­un Þína og lætur mig dafna í öllum ver­öldum Þínum. Þú ert í sannleika hinn náðugi og gjafmildi.

Drottinn! Snú mér ekki burt frá úthafi auðæfa Þinna og himni náðar Þinnar og ákvarða mér hið góða í þessum heimi og þeim sem kemur. Sann­lega ert Þú Drottinn náðarsætisins, konungur í upp­hæðum; enginn er Guð nema Þú, hinn eini, sá sem allt þekkir, hinn alvísi.

-Bahá'u'lláh
-----------------------
Andlegir eiginleikar (#1588)

Ó Drottinn minn! Lát fegurð Þína vera fæðu mína, nærveru Þína drykk minn, velþóknun Þína von mína, lofgjörð um Þig athöfn mína, minn­ingu um Þig félaga minn, mátt alveldis Þíns hjálp mína, híbýli Þín heimili mitt og dvalarstað minn það sæti, sem Þú hefur helgað frá þeim takmörkunum, sem lagðar eru á þá sem eru úti­lokaðir frá Þér eins og með blæju.

Þú ert sannlega hinn alvaldi, hinn aldýrlegi og máttugasti.

-Bahá'u'lláh
-----------------------
Andlegir eiginleikar (#1589)

Seg: ó Guð, Guð minn! Krýn höfuð mitt kórónu réttlætisins og musteri mitt djásni sann­girn­innar. Sannlega ert Þú eigandi allra gjafa og gæsku.

-Bahá'u'lláh
-----------------------
Andlegir eiginleikar (#1590)

Lofað sé nafn Þitt, ó Drottinn Guð minn! Ég er þjónn Þinn sem hef tekið í líftaug Þinnar mildu miskunnar og haldið í klæðisfald örlætis Þíns. Ég sárbæni Þig við nafn Þitt, sem hefur lagt undir Þig allt sem skapað er bæði sýnilegt og ósýnilegt, og dreift andanum sem er lífið sjálft yfir gervalla sköpunina, að styrkja mig með mætti Þínum sem umlykur himna og jörð, og verja mig öllum sjúkleika og raunum. Ég ber því vitni að Þú ert Drottinn allra nafna og ákvarðar allt sem Þér þóknast. Enginn er Guð nema Þú, hinn almáttugi, sá er allt þekkir, hinn alvísi.

Ákvarða mér, ó Drottinn minn, það sem er mér hagfellt í sérhverri veröld veralda Þinna. Sjá mér einnig fyrir því sem Þú hefur ritað niður fyrir hina útvöldu meðal skepna Þinna, þá sem hvorki last­mæli lastarans, háreysti hins trúlausa né firring þeirra sem hafa fjarlægst Þig hefur tekist að snúa frá Þér.

Þú ert að sönnu hjálpin í nauðum í krafti yfirráða Þinna. Enginn er Guð nema Þú, hinn almáttugi og voldugasti.

-Bahá'u'lláh
-----------------------
Andlegir eiginleikar (#1591)

Ó Guð minn, Guð örlætis og miskunnsemi. Þú ert konungurinn, sem skipaði fyrir um sköpun alheimsins, og Þú ert hinn örláti, sem aldrei hefur látið verk þjóna sinna aftra sér frá að sýna náð sína né látið þá spilla opinberun örlætis síns.

Ég sárbæni Þig að leyfa þjóni Þínum að öðlast það, sem frelsar hann í öllum heimum veraldar Þinnar. Þú ert vissulega hinn almáttugi og öflug­asti, hinn alvitri og alvísi.

-Bahá'u'lláh
-----------------------
Andlegir eiginleikar (#1592)
Hann er Guð, sá sem heyrir bænir og svarar þeim.

Við dýrð Þína, ó ástvinur, Þú sem gefur heim­in­um ljós. Eldur aðskilnaðar hefur eytt mér og afglöp mín tæra hjarta mitt. Ég bið Þig við Þitt mesta nafn, ó Þú þrá heimsins og ástvinur mann­kynsins, að gefa að andvari innblásturs megi styrkja sál mína, undur­samleg rödd Þín ná eyrum mínum, augu mín líta tákn Þín og ljós eins og það opin­berast í birtingum nafna Þinna og eiginda, ó Þú sem hefur í hendi Þinni allt sem er.

Þú sérð, ó Drottinn Guð minn, tár þeirra sem Þér eru kærir og sem falla vegna aðskilnaðar við Þig og ótta þeirra sem eru helgaðir Þér vegna fjarlægðar frá heilögum forgarði Þínum. Við mátt Þinn, sem hreyfir allt sem er, sýnilegt og ósýnilegt. Það sæmir ástvinum Þínum að gráta blóðugum tárum yfir hlut­skipti hinna trúföstu í höndum illvirkja og kúgara jarðar­innar. Þú sérð, ó Guð minn, hvernig hinir óguðlegu hafa umkringt borgir Þínar og ríki! Ég bið Þig við sendiboða Þína og Þína útvöldu og þann sem hóf gunnfána himn­eskrar einingar Þinnar á loft meðal þjóna Þinna, að skýla þeim af veglyndi Þínu. Þú ert sann­lega hinn náðugi, sá sem allt gefur.

Og enn bið ég Þig við ljúfar regnskúrir náðar Þinnar og öldurnar á hafi hylli Þinnar að ákvarða Þínum heilögu það sem færir augum þeirra fró og hjörtum þeirra hugsvölun. Drottinn! Þú sérð þann sem krýpur fullan löngunar til að rísa upp til að þjóna Þér, hinn dauða hrópa á eilíft líf frá úthafi hylli Þinnar og þrá að svífa til himins auðæfa Þinna, hinn ókunna sárþarfn­ast heimkynna dýrðar undir tjaldhimni náðar Þinnar, leitandann hraða för sinni vegna náðar Þinnar til hliðs örlætis Þíns, hinn synduga leita til úthafs fyrir­gefningar og afláts.

Við yfirráð Þín, ó Þú sem ert vegsamaður í hjörtum manna! Ég hef leitað til Þín, yfirgefið minn eigin vilja og löngun svo að Þinn heilagi vilji og velþóknun megi ríkja í mér og leiða mig í sam­ræmi við það sem penni eilífrar ákvörðunar Þinn­ar hefur fyrirhugað mér. Þessi þjónn, ó Drottinn, er hjálpar­vana en snýr sér til himinhnattar valds Þíns, niður­lægður en hraðar sér til dagsbrúnar dýrðar Þinnar, þurfandi en þráir úthaf náðar Þinnar. Ég bið Þig við hylli Þína og örlæti að varpa honum ekki frá Þér.

Þú ert vissulega hinn almáttugi, fyrirgefandinn, hinn vorkunnláti.

-Bahá'u'lláh
-----------------------
Andlegir eiginleikar (#1593)

Dýrlegur ert Þú, ó Drottinn Guð minn! Ég flyt Þér þökk fyrir að hafa vakið mig til lífs á dögum Þínum og gætt mig ást Þinni og þekkingu. Ég bið Þig við nafn Þitt sem úr fjárhirslum hjartna þeirra, er þjóna í návist Þinni, hefur laðað fram töfrandi perlur visku Þinnar og látið sól nafns Þíns, hins vorkunnláta, úthella geislum sínum yfir alla sem eru á himni Þínum og jörðu Þinni, að veita mér af náð Þinni og mildi huldar gjafir Þínar og dásemdir.

Þetta eru fyrstu dagar lífs míns, ó Drottinn minn, sem Þú hefur tengt Þínum eigin dögum. Er Þú nú hefur sæmt mig slíkri vegsemd hald þá eigi frá mér því sem Þú hefur fyrirbúið Þínum útvöldu.

Ég er, ó Guð, frækorn sem Þú hefur sáð í akur ástar Þinnar og látið vaxa með gjöfulli hendi. Sáð­korn þetta þyrstir því í djúpum verundar sinnar eftir regni miskunnar Þinnar og lifandi uppsprettu náðar Þinnar. Send því niður til þess frá himni elsku Þinnar það sem gerir því kleift að blómgast í forsælu Þinni, innan mæra hirðar Þinnar. Þú ert sá sem vökvar hjörtu allra þeirra er borið hafa kennsl á Þig af nægtabrunni Þínum og lind lifandi vatna.

Lof sé Guði, Drottni allra veraldanna.
-Bahá'u'lláh
-----------------------
Andlegir eiginleikar (#1594)

Gef mér, ó Guð minn, fullan mæli ástar Þinnar og velþóknunar og ger hjörtu okkar berg­num­in er þau laðast að skínandi ljósi Þínu, ó Þú, sem ert hinn æðsti vitnisburður, hinn aldýrlegi. Send niður yfir mig, sem tákn um miskunn Þína, endurlífgandi andblæ Þinn á degi og að næturþeli, ó örláti Drottinn. Enga dáð hef ég drýgt, ó Guð minn, að ég verðskuldi að líta ásýnd Þína og ég veit með vissu, að þótt ég lifði jafn lengi og ver­aldirnar vara, mundi mér ekki takast að drýgja neina þá dáð, sem verðskuldaði slíka hylli, því að staða þjóns Þíns verður ávallt óverðug heilögum híbýlum Þín­um, nema örlæti Þitt nái til mín og ljúf miskunn Þín gagntaki mig og ástúð Þín umlyki mig. Allt lof sé Þér, ó Þú, sem engan átt Þinn líka. Ger mér af náð Þinni kleift að stíga upp til Þín og hljóta þá vegsemd að dvelja í návist Þinni og hafa samneyti við Þig einan. Enginn er Guð nema Þú. Í sannleika, ef Þú óskaðir að veita þjóni þinum blessun, myndir Þú afmá úr hjarta hans alla minningu og hneigð nema minninguna um sjálfan Þig, og ef Þú áformaðir þjóni Þínum illt hlutskipti sakir þess sem hendur hans hafa ranglega unnið fyrir augliti Þínu, myndir Þú reyna hann með gæð­um þessa heims og hins næsta, til þess að þau tækju hug hans allan og hann gleymdi að minnast Þín.

-Bábinn
-----------------------
Andlegir eiginleikar (#1595)

Ó Guð! Endurnýja og gleð anda minn. Skír hjarta mitt. Auk hæfni mína. Í Þínar hendur fel ég allar athafnir mínar. Þú ert leiðarljós mitt og athvarf. Ég mun ekki framar verða sorgmæddur og hryggur. Ég mun verða hamingjusamur og fagn­andi. Ó Guð! Ég mun ekki framar verða áhyggju­fullur né láta erfiðleika íþyngja mér. Ég mun ekki framar festa hugann við skuggahliðar lífsins.

Ó Guð! Þú ert mér meiri vinur en ég er sjálfum mér. Ég helga mig Þér, ó Drottinn!

-`Abdu'l-Bahá
-----------------------
Andlegir eiginleikar (#1596)

Ó Guð minn! Ó Guð minn! Dýrð sé Þér fyrir að hafa gefið mér staðfestu til að viðurkenna einingu Þína, laðað mig að orði einstakleika Þíns, upptendrað mig með eldi ástar Þinnar og látið mig festa hugann við minningu Þína og þjónustu við vini Þína og þjónustumeyjar.

Ó Drottinn, hjálpa mér að vera auðmjúkur og undir­gefinn, gef mér styrk til að skiljast frá öllu sem er og ná traustu taki á klæðisfaldi dýrðar Þinnar svo hjarta mitt megi fyllast ást Þinni og ekkert rúm verði eftir fyrir ást á heiminum og eftirsókn eftir eigindum hans.

Ó Guð! Helga mig frá öllu nema Þér, hreinsa mig af sora, synd og yfirtroðslu og gef að ég eignist and­legt hjarta og samvisku.

Sannlega ert Þú miskunnsamur og sannlega ert Þú hinn örlátasti, sá sem allir leita ásjár hjá.

-`Abdu'l-Bahá
-----------------------
Andlegir eiginleikar (#1597)

Ó Drottinn minn! Ó Drottinn minn! Þetta er lampi sem lýsir af eldi ástar Þinnar og skín af loganum sem er glæddur í tré náðar Þinnar. Ó Drottinn minn! Glæð funa hans, hita og eld með bál­inu sem brennur á Sinaí opinberunar Þinnar. Sann­lega ert Þú sá sem staðfestir, hjálparinn, hinn voldugi og örláti, hinn ástríki.

-`Abdu'l-Bahá
-----------------------
Andlegir eiginleikar (#1598)

Ó Guð minn! Ó Guð minn! Þessi þjónn Þinn hefur nálgast Þig, reikar löngunarfullur í eyði­­mörk kærleika Þíns, gengur vegu þjónustu Þinnar, væntir hylli Þinnar, vonast eftir örlæti Þínu, treystir á ríki Þitt og ölvast af víni gjafar Þinnar. Ó Guð minn! Auk ástarhita hans til Þín, staðfestu lofs hans og hita elsku hans á Þér.

Sannlega ert Þú hinn örlátasti, Drottinn ríku­legrar náðar. Enginn er Guð nema Þú, fyrir­gef­andinn, hinn miskunnsami.

-`Abdu'l-Bahá
-----------------------
Andlegir eiginleikar (#1599)

Ó Guð, Guð minn! Þetta er geislandi þjónn Þinn og andlegur bandingi sem hefur laðast að Þér og nálgast návist Þína. Hann hefur beint andliti sínu að Þér, viðurkennt einingu Þína, játað einstæði Þitt og hann hefur kallað í Þínu nafni meðal þjóðanna og leitt mennina að streymandi vatni miskunnar Þinnar, ó Þú örlátasti Drottinn! Þá sem þess fóru á leit gaf hann að drekka af bikar leiðsagnar sem flóir yfir af víni takmarkalausrar náðar Þinnar.

Ó Drottinn, aðstoða hann undir öllum kring­um­stæðum, gef honum þekkingu á vel varðveittum leynd­ar­­dómum Þínum og lát rigna yfir hann huldum perl­um Þínum. Ger hann að gunnfána sem blaktir frá kastala­hæðum í vindi himneskrar aðstoðar Þinnar og ger hann að uppsprettu kristal­tærs vatns.

Ó fyrirgefandi Drottinn minn! Upplýs hjörtun með geislum þess lampa sem gefur frá sér ljós á alla vegu og afhjúpar þeim af lýði Þínum, sem Þú hefur sýnt ríkulegt örlæti, raunveruleika alls sem er.

Sannlega ert Þú hinn máttugi og voldugi, vernd­ar­inn, hinn sterki og gæskuríki.

Sannlega ert Þú Drottinn allra miskunnsemda.
-`Abdu'l-Bahá
-----------------------
Andlegir eiginleikar (#1600)

Ó Guð, Guð minn! Þetta eru veikburða þjónar Þínir, trúfastir bandingjar Þínir og þjónustu­meyjar, sem hafa beygt sig fyrir upphöfnum orðum Þínum og auðmýkt sig við fótskör ljóss Þíns og borið vitni einingu Þinni sem hefur látið sólina skína í hádegisljóma. Þeir hafa hlýtt á hvatningar­orðin sem Þú mæltir frá huldu ríki Þínu og svarað kalli Þínu með hjörtum sem titruðu af ást og hrifningu.

Ó Drottinn, úthell yfir þá allri náð Þinni, lát rigna yfir þá vatni miskunnar Þinnar. Lát þá vaxa sem fagrar jurtir í garði himinsins og lát þennan garð blóm­gast með regni úr barmafullum og yfir­fló­andi skýj­um gjafa Þinna og djúpum hyljum ríku­legrar náð­ar. Ger hann ætíð grænan og skrúð­mikinn, ávallt ferskan, tindrandi og bjartan.

Þú ert sannlega hinn máttugi og upphafni, hinn voldugi, sá eini á himnum og jörðu sem ekki breyt­ist. Enginn er Guð nema Þú, Drottinn aug­ljósra tákna og ummerkja.

-`Abdu'l-Bahá
-----------------------
Andlegir eiginleikar (#1601)
Hann er Guð!

Ó Guð, Guð minn! Þetta eru þjónar Þínir sem á Þínum eigin dögum hafa laðast að ilmi heilag­leika Þíns, upptendrast af loganum sem brennur í Þínu heilaga tré, svara rödd Þinni og flytja lof um Þig. Þeir hafa vaknað við andvara Þinn, eru snortnir af ljúfri angan Þinni, líta tákn Þín, skilja vers Þín, hyggja að orðum Þínum, trúa opinberun Þinni og eru fullvissir um ástúð Þína. Augu þeirra, ó Drottinn, líta ljómandi dýrðarríki Þitt og ásjónur þeirra beinast að veldi Þínu á hæðum, hjörtu þeirra slá af ást á geislandi og dýrlegri fegurð Þinni, sálir þeirra eru alteknar af eldi ástar Þinnar, ó Drottinn þessa heims og þess sem kemur. Líf þeirra ólgar af heitri þrá eftir Þér og tár þeirra streyma sakir Þín.

Skýl þeim í virki verndar Þinnar og öryggis, og varðveit þá í vökulli umsjá Þinni. Lít til þeirra með miskunn og handleiðslu, ger þá að þeim táknum guð­legrar einingar Þinnar sem eru auðsæ á öllum svið­um, gunnfána máttar Þíns sem blakta yfir tign­ar­setrum Þínum, skínandi lampa sem loga af olíu visku Þinnar í ljóshjálmum leiðsagnar Þinnar, fugla í garði þekkingar Þinnar sem syngja á hæstu greinum í Þinni skjólsælu paradís, og levjatana í úthafi örlætis Þíns sem steypa sér í ómælisdjúp af einstæðri mis­kunn Þinni.

Ó Drottinn, Guð minn! Þessir þjónar Þínir eru lítils megnugir, upphef þá í ríki Þínu hið efra; veik­burða, styrk þá af Þínum æðsta mætti; niður­lægðir, veit þeim dýrð Þína á alhæsta sviði Þínu; fátækir, auðga þá í voldugu ríki Þínu. Ákvarða þeim einnig allt hið góða sem Þú hefur fyrirbúið í veröldum Þínum, sýnilegum og ósýnilegum, veit þeim hag­sæld hins jarðneska heims og gleð hjörtu þeirra með innblæstri Þínum, ó Drottinn allra! Uppljóma hjörtu þeirra með fagnaðarerindum Þín­um sem dreift er frá aldýrlegri stöðu Þinni, ger skref þeirra stöðug í Þínum æðsta sáttmála og styrk lendar þeirra í Þinni óhagganlegu erfðaskrá, af veglyndi Þínu og náð, sem Þú hefur heitið þeim, ó Þú hinn náðugi og mis­kunn­sami! Þú ert vissu­lega hinn náðugi, sá sem allt gefur.

-`Abdu'l-Bahá
-----------------------
Andlegir eiginleikar (#1602)

Ó Þú framfærandi! Þú hefur andað ljúfum ilmi heilags anda yfir vinina á Vesturlöndum og lýst upp vesturhimininn með ljósi leiðsagnar. Þú hefur laðað þá til Þín sem eitt sinn voru fjarlægir, Þú hefur gert hina ókunnu að ástríkum vinum, Þú hefur vakið þá sem sváfu, Þú hefur gert hina gálausu aðgætna.

Ó Þú framfærandi! Aðstoða þessa göfugu vini við að ávinna sér velþóknun Þína og ger þá að vel­unn­urum jafnt vina sem ókunnugra. Leið þá inn í veröld sem varir að eilífu, veit þeim hlutdeild í himneskri náð, lát þá verða sanna Bahá’ía, einlæga í Guði, frelsa þá frá ytri eftirlíkingum og grund­valla þá staðfastlega í sannleikanum. Ger þá að táknum og ummerkjum ríkisins, skínandi stjörn­ur yfir sjón­ar­hring þessa lægra lífs. Ger þá að huggun og hug­svölun mann­kyns, þjóna heimsfrið­ar­ins. Ölva þá víni heilræða Þinna og gef að þeir megi allir feta stigu boða Þinna.

Ó Þú framfærandi! Heitasta ósk þessa þjóns fót­skarar Þinnar er að sjá vinina í austri og vestri í nánu samneyti; að sjá alla menn koma saman í ást á einu miklu mannþingi líkt og staka vatnsdropa sameinaða í voldugu hafi, að sjá þá alla sem fugla í einum rósagarði, sem perlur eins hafs, lauf sama trés, geisla einnar sólar.

Þú ert hinn máttugi og voldugi og Þú ert Guð styrks, hinn almáttugi og alsjáandi.

-`Abdu'l-Bahá
-----------------------

Table of Contents: Albanian :Arabic :Belarusian :Bulgarian :Chinese_Simplified :Chinese_Traditional :Danish :Dutch :English :French :German :Hungarian :Íslenska :Italian :Japanese :Korean :Latvian :Norwegian :Persian :Polish :Portuguese :Romanian :Russian :Spanish :Swedish :Turkish :Ukrainian :