Announcing: BahaiPrayers.net


More Books by Ridvan

1996-153BE
1997-154BE
1998-155BE
1999-156BE
2000-157BE
2001-158BE
2002-159BE
2003-160BE
2004-161BE
2005-162BE
2006-163BE
2007-164BE
2008-165BE
2009-166BE
2010-167BE
2011-168BE
2012-169BE
2013-170BE
2014-171BE
2015-172BE
2016-173BE
2017-174BE
2018-175BE
Free Interfaith Software

Web - Windows - iPhone








Ridvan : 2016-173BE
Allsherjarhús réttvísinnar
Ridvan 2016 / 173BE
Til bahá'ía um heim allan
Ástkæru vinir,

Nú þegar helgasta hátíð bahá’í trúarinnar gengur í garð er undirbúningi næstu heimsáætlunar lokið. Á þessari stundu hvetjum við vini Guðs til að helga sig nýrri fimm ára áætlun af hugrekki, einbeitni og úrræðasemi.

Liðsafli trúfastra fylgjenda Bahá’u’lláh er í viðbragðsstöðu. Frá stofnanafundum sem haldnir hafa verið víða um heim á undanförnum mánuðum hafa ítrekað borist merki um það kapp sem lagt er á að hefja þetta volduga verkefni. Með ákveðnum aðgerðaáætlunum er nú þegar verið að útfæra þá brýnu hvatningu sem boðin til ráðstefnu álfuráðgjafanna hafa að geyma. Áratugum saman hefur hetjuleg viðleitni mótað samfélagið og sannað í ákveðnum mæli getu þess til að stuðla að vexti og jafnframt stálsett það fyrir stundina sem upp er runnin. Einkum og sér í lagi hefur þróun undanfarinna tveggja áratuga orðið til að hraða þessari langþráðu eflingu þekkingar og hæfni.

Á þessum tíma var tekinn upp aðgerðarammi sem fól í sér þróun og gerði vinunum kleift að styrkja og fínslípa nauðsynlega hæfni stig af stigi. Í fyrstu var um að ræða einföld þjónustuverkefni sem leiddu til flóknara aðgerðamynsturs sem að sínu leyti krafðist þróunar ennþá flóknari hæfni. Þannig hefur kerfisbundið ferli mannauðsþróunar og samfélagsuppbyggingar hafist í þúsundum umdæma – og er langt á veg komið í mörgum þeirra. Áherslan hefur ekki aðeins verið á hinn einstaka átrúanda eða samfélagið eða stofnanir trúarinnar. Þessir þrír aðilar eru óaðskiljanlegir þátttakendur í mótun nýs heimsskipulags, örvaðir andlegum kröftum sem leysast úr læðingi með framgangi Hinnar guðlegu áætlunar. Táknin um framfarir þeirra verða æ skýrari: Í sjálfsörygginu sem ótölulegur fjöldi átrúenda hefur öðlast til að segja frá lífi Bahá’u’lláh og tala um þýðinguna sem opinberun Hans og óviðjafnanlegur sáttmáli hafa; í vaxandi fjölda sálna sem af þeim sökum hafa laðast að málstað Hans og eru að leggja sitt af mörkum til að gera sameinandi sýn Hans að veruleika; í hæfni bahá’ía og vina þeirra í sjálfri grasrót samfélagsins til að lýsa á mælskan hátt reynslu sinni af ferli sem getur umbreytt einstaklingnum og mótað þjóðfélagslega tilveru; í verulegri fjölgun heimamanna og innfæddra sem eru meðlimir bahá’í stofnana og nefnda og eru nú í leiðandi hlutverki í málefnum samfélaga sinna; í traustum, örlátum og fórnfúsum gjöfum til sjóðsins sem eru þróun trúarinnar svo mikilvægar; í því hvernig einstaklingsfrumkvæði og sameiginlegur stuðningur við samfélagsuppbyggingu blómstra meira en áður hefur sést; í atorku og ákafa svo margra sjálflausra sálna í blóma lífsins sem ljá þessu starfi gríðarlegan kraft, sérstaklega með því að sinna andlegri uppfræðslu yngri kynslóða; í sterkari tilbeiðsluanda í samfélaginu með tilstyrk reglulegra helgistunda; í meiri hæfni á öllum sviðum bahá’í stjórnskipunar; í vilja stofnana, nefnda og einstaklinga til að hugsa í skipulegum ferlum, að lesa í nánasta veruleika sinn og meta úrræðin sem þeim standa þar til boða og gera áætlanir á þeim grunni; í þeim vel þekktu öflum náms, samráðs, aðgerða og íhugunar sem hafa skapað innra lærdómshugarfar; í vaxandi skilningi á þýðingu þess að beita kenningunum í verki í þjóðfélaginu; í stöðugt fleiri tækifærum sem leitað er og gripið er til í því skyni að bjóða upp á bahá’í viðhorf í ríkjandi samfélagsumræðu; í þeirri vitund heimssamfélags að það er í öllum verkum sínum að flýta komu guðlegrar siðmenningar með því að birta þau öfl samfélagsuppbyggingar sem eru málstaðnum eiginleg; og að sönnu í vaxandi vitund vinanna um að viðleitni þeirra til að stuðla að innri umbreytingu, víkka hring einingar, vinna með öðrum á vettvangi þjónustu, að hjálpa hópum fólks að taka stjórnina á sínum eigin andlega, félagslega og efnahagslega þroska – og með allri þessari viðleitni að stuðla að betri heimi, tjá innsta tilgang trúarbragðanna sjálfra.

Þótt engan einn mælikvarða sé hægt að leggja á heildarframfarir bahá’í samfélagsins er hægt að draga ýmsar ályktanir af fjölda umdæma á heimsvísu þar sem stofnað hefur verið til vaxtarferlis og sem við getum staðfest, þakklátir fyrir gjafir Abhá fegurðarinnar, að eru orðin fleiri en 5.000. Svo breiður grundvöllur var forsenda þess að takast á við verkefni sem nú blasa við bahá’í heiminum – að styrkja vaxtarferlið í sérhverju umdæmi þar sem það er hafið og færa enn frekar út auðugt og gefandi mynstur samfélagslífs. Þetta krefst þrotlausrar viðleitni og erfiðis. En niðurstaðan getur haft gríðarlega mikla þýðingu, jafnvel valdið straumhvörfum. Með smáum skrefum er hægt að leggja að baki miklar vegalengdir séu þau stigin hratt og taktfast. Með því að leggja áherslu á framfarirnar sem verða að eiga sér stað í umdæmi strax í byrjun – til dæmis í þeim sex vaxtarbylgjum sem koma fyrir fyrri tvö hundruð ára minningarhátíðina – munu vinirnir koma miklu í verk til þess að markmið þeirra í fimm ára áætluninni verði innan seilingar. Í sérhverri bylgju felast skammvinn tækifæri til að taka framförum, dýrmætir möguleikar sem ekki koma aftur.

Í þjóðfélaginu í heild fer ummerkjum stöðugt dýpri og versnandi meinsemda sálarinnar því miður fjölgandi. Hversu eftirtektarverð er ekki sú staðreynd að þegar þjóðir heims þjást vegna skorts á sannri græðingu og snúa sér í krampakenndri óþreyju frá einni falsvon til annarrar, eruð þið í sameiningu að fága tæki sem tengir hjartað eilífu orði Guðs. Hversu eftirtektarvert er það ekki að mitt í háreysti og væringum einstrengingslegra skoðana og andstæðra hagsmuna sem verða sífellt heiftugri allt um kring, einbeitið þið ykkur að því að safna fólki saman til að byggja upp samfélög sem eru athvarf einingar. Fjarri því að telja úr ykkur kjarkinn ættu fordómar og fjandskapur heimsins að minna á hversu brýna þörf sálir allt í kringum ykkur hafa fyrir græðismyrslið sem þið ein getið fært þeim.

Þetta er síðasta áætlunin í samfelldri röð fimm ára áætlana. Við lok hennar hefst nýr áfangi í þróun Hinnar guðlegu áætlunar og hann mun knýja samfélag Bahá’u’lláh áleiðis að þriðju öld bahá’í tímatalsins. Megi vinir Guðs í sérhverju landi meta að verðleikum fyrirheit þeirra fáu ára sem framundan eru og verða öflugur undirbúningur undir enn voldugri verkefni sem bíða síns tíma. Breitt umfang áætlunarinnar sem nú er að hefjast gerir sérhverjum einstaklingi kleift að styðja við þetta starf, hversu fábrotið sem framlag hans kann að vera. Við biðjum ykkur, kæru samverkamenn, tilbiðjendur Hans sem er ástvinur veraldanna, að gera það sem í ykkar valdi stendur til að beita öllu sem þið hafið lært og allri þeirri hæfni og getu sem þið búið yfir og Guð hefur gefið ykkur til að stuðla að framgangi Hinnar guðlegu áætlunar, að næsta lífsnauðsynlega áfanga hennar. Auk innilegra bæna ykkar um himneska aðstoð koma bænir okkar í hinum helgu grafhýsum fyrir öllum sem starfa og strita í þágu þessa alltumlykjandi málstaðar.

Allsherjarhús réttvísinnar

Table of Contents: Albanian :Arabic :Belarusian :Bulgarian :Chinese_Simplified :Chinese_Traditional :Danish :Dutch :English :French :German :Hungarian :Íslenska :Italian :Japanese :Korean :Latvian :Norwegian :Persian :Polish :Portuguese :Romanian :Russian :Spanish :Swedish :Turkish :Ukrainian :