Announcing: BahaiPrayers.net


More Books by Ridvan

1996-153BE
1997-154BE
1998-155BE
1999-156BE
2000-157BE
2001-158BE
2002-159BE
2003-160BE
2004-161BE
2005-162BE
2006-163BE
2007-164BE
2008-165BE
2009-166BE
2010-167BE
2011-168BE
2012-169BE
2013-170BE
2014-171BE
2015-172BE
2016-173BE
2017-174BE
2018-175BE
Free Interfaith Software

Web - Windows - iPhone








Ridvan : 2011-168BE
Allsherjarhús réttvísinnar
Ridvan 2011 / 168BE
Til bahá'ía um heim allan
Ástkæru vinir,

Það birtir fyrir sjónum nú þegar þessi dýrlega árstíð fer í hönd, er við lítum nýlega afhjúpaðan ljómann frá gullna hvolfþakinu sem krýnir göfugt grafhýsi Bábsins. Þessi tignarlega bygging hefur verið endurgerð í þeim guðdómlega bjarma sem Shoghi Effendi ætlaði henni og skín á ný, dag og nótt, yfir land, haf og himin sem vitnisburður um hátign og heilagleika hans hvers helgar jarðneskar leifar hún geymir.

Þessi fagnaðarríka stund fer saman við lok heillaríks kafla í þróun hinnar guðlegu áætlunar.

Aðeins áratugur er eftir af fyrstu öld mótunartímans, fyrstu hundrað árunum sem líða í gæskuríku skjólinu af erfðaskrá ‘Abdu’l-Bahá. Ný fimm ára áætlun tekur við af þeirri sem nú lýkur en meginþættir hennar hafa þegar orðið tilefni stöðugs og einbeitts náms í bahá’í heiminum. Að sönnu gætu viðbrögðin við boðskap okkar til ráðstefnu álfuráðgjafanna og riḍvánboðum okkar fyrir 12 mánuðum ekki glatt okkur meira. Vinirnir gera sér ekki að góðu brotakenndan skilning á innihaldi þeirra heldur hverfa á vit þessara boða aftur og aftur sem einstaklingar eða í hópum á formlegum fundum og sjálfsprottnum samkomum. Skilningur þeirra glæðist af virkri og upplýstri þátttöku í vaxtaráætlunum sem hlúð er að í umdæmum þeirra. Bahá’í samfélagið um heim allan hefur því vitandi vits drukkið í sig á fáeinum mánuðum það sem þarf til að gefa því kraft til að byrja komandi áratug af öryggi og fullvissu.

Á sama tíma hafa vaxandi pólitísk umbrot og efnahagslegt öngþveiti á ýmsum meginlöndum skekið ríkisstjórnir og þjóðir. Þjóðfélög ramba á barmi byltingar og í eftirtektarverðum tilvikum eru þau farin fram af brúninni. Leiðtogar eru að komast að raun um að hvorki vopn né auðæfi geta tryggt öryggi. Vanþóknun og reiði hafa safnast upp þar sem óskum og þrám fólksins hefur ekki verið svarað. Við minnumst beinskeyttra orða Bahá’u’lláh þegar hann áminnti stjórnendur jarðar: „Þjóð yðar og þegnar eru fjársjóðir yðar. Varist að stjórnarhættir yðar brjóti gegn boðum Guðs og þér seljið þá sem yður hefur verið trúað fyrir í hendur ræningjans.“ Varnaðarorð: Hversu grípandi og áhrifamikill sem tilfinningahitinn er meðal fólksins sem þráir breytingar, verður að minnast þess að atburðarásinni er stýrt af hagsmunaöflum. Og meðan því læknisráði sem hinn guðlegi græðari hefur mælt fyrir um er ekki fylgt mun þrengingum tímanna ekki linna heldur munu þær magnast. Athugull skoðandi aldarfarsins sér strax merki um hraðari upplausn hörmulega gallaðs heimskipulags, upplausn sem er slitrótt en óstöðvandi og vægðarlaus.

Þó má einnig greina mótvægi hennar, uppbyggingarferlið sem Vörðurinn tengdi „trú Bahá’u’lláh í mótun“ og lýsti sem „undanfara hins nýja heimsskipulags sem trúin hlýtur að stofna áður en langt um líður.“ Óbein áhrif þess má sjá í miklum tilfinningaþunga, einkum meðal hinna ungu, sem sprettur af löngun til að leggja af mörkum til samfélagslegrar þróunar. Það er sérstök hylli sem veitist fylgjendum hinnar öldnu fegurðar að þessari þrá sem sprettur ómótstæðilega upp af anda mannsins í sérhverju landi sé gert mögulegt að finna sér öflugan farveg í því starfi sem bahá’í samfélagið vinnur við að byggja upp hæfni til áhrifaríkra aðgerða í fjölbreytileika þeirra þjóða sem byggja jörðina. Geta nokkur forréttindi jafnast á við þessi? Til að fá innsýn í þetta starf ætti sérhver átrúandi að horfa til ‘Abdu’l-Bahá. Aldarafmælis „tímamótaferða“ hans er minnst nú um stundir. Óþreytandi útskýrði hann kenningarnar við hverskyns þjóðfélagslegar aðstæður: á heimilum og í trúboðsstöðvum, í kirkjum og synagógum, á torgum og í almenningsgörðum, í járnbrautarvögnum og um borð í hafskipum, í klúbbum og samtökum, á menntasetrum og í háskólum. Hann gerði engar málamiðlanir í vörn sannleikans, sýndi þó takmarkalausa blíðu í viðmóti og studdi aðkallandi þarfir samtímans rökum guðlegra meginreglna. Embættismönnum, vísindamönnum, verkafólki, börnum, foreldrum, útlögum, aðgerðasinnum, klerkum og efasemdarmönnum — öllum miðlaði hann án aðgreiningar af ást sinni, visku og hughreystingu, hver sem þörfin var á hverjum tíma. Hann hóf sálir þeirra í æðra veldi og um leið ögraði hann hugmyndum þeirra, beindi sjónum þeirra í nýjar áttir, útvíkkaði vitund þeirra og gaf orku þeirra aukna skerpu. Í orði sínu og verki sýndi hann slíka samúð og veglyndi að hjörtun umbreyttust gjörsamlega. Engum var snúið á brott. Einlæg von okkar er sú að á þessu aldarafmæli muni það innblása og styrkja einlæga aðdáendur Meistarans að minnast tíðum óviðjafnanlegrar afrekaskrár hans. Setjið ykkur fordæmi hans fyrir sjónir og festið auglit ykkar á því; látið það verða eðlislæga leiðsögn ykkar þegar þið vinnið að markmiðum áætlunarinnar.

Við upphaf fyrstu hnattrænu áætlunar bahá’í samfélagsins lýsti Shoghi Effendi því í áhrifamiklu máli hvernig hið guðlega ljós kviknaði í áföngum, fyrst í Síyáh-Chál, síðan í lampa opinberunar í Baghdád, hvernig það breiddist út og náði til landa í Asíu og Afríku á sama tíma og það blikaði með auknum ljóma í Adríanópel og síðar í Akká, hvernig því var varpað yfir hafið til annarra meginlanda þaðan sem það breiddist stig af stigi yfir þjóðríki og hjálendur heimsins.

Lokastigi þessa ferlis lýsti hann sem „þessu ljósi sem rýfur sér leið ... til allra annarra svæða á hnettinum“, og vísaði til þess sem „áfangans þegar ljós sigursællar trúar Guðs, skínandi í öllum sínum mætti og dýrð, hefur flætt um alla jörðina og umlukið hana.“ Þótt þessu takmarki hafi langt í frá verið náð logar ljósið þó skært á mörgum svæðum. Í sumum löndum skín það í sérhverju umdæmi. Í landinu þar sem ódeyjandi ljós þess fyrst var kveikt, logar það skært þrátt fyrir þá sem myndu vilja slökkva það. Meðal ýmissa þjóða lýsir það stöðugt í heilum hverfum og bæjum þegar hönd forsjónarinnar kveikir á hverju kertinu af öðru; það upplýsir íhugula umræðu á sérhverju stigi mannlegra samskipta; það varpar geislum sínum yfir fjölda frumkvæða sem tekin eru til að stuðla að velferð fólks. Og í öllum tilvikum geislar það frá hinum trúfasta átrúanda, frá lifandi og fjörmiklu samfélagi, ástríku andlegu ráði – allt eru þetta ljós sem skína í myrkinu.

Við biðjum þess einlæglega við hina helgu fótskör að sérhverju ykkar, sem berið hinn ódeyjandi loga, megi hvaðanæva hlotnast öflugar staðfestingar Bahá’u’lláh þegar þið miðlið öðrum neista trúarinnar.

Allsherjarhús réttvísinnar

Table of Contents: Albanian :Arabic :Belarusian :Bulgarian :Chinese_Simplified :Chinese_Traditional :Danish :Dutch :English :French :German :Hungarian :Íslenska :Italian :Japanese :Korean :Latvian :Norwegian :Persian :Polish :Portuguese :Romanian :Russian :Spanish :Swedish :Turkish :Ukrainian :