Announcing: BahaiPrayers.net


More Books by Ridvan

1996-153BE
1997-154BE
1998-155BE
1999-156BE
2000-157BE
2001-158BE
2002-159BE
2003-160BE
2004-161BE
2005-162BE
2006-163BE
2007-164BE
2008-165BE
2009-166BE
2010-167BE
2011-168BE
2012-169BE
2013-170BE
2014-171BE
2015-172BE
2016-173BE
2017-174BE
2018-175BE
Free Interfaith Software

Web - Windows - iPhone








Ridvan : 2003-160BE
Allsherjarhús réttvísinnar
Ridvan 2003 / 160BE
Til bahá'ía um heim allan
Ástkæru vinir,

Nú þegar tvö ár eru liðin af fimm ára áætluninni, sækjum við fram á við af auknum krafti. Á nýliðnu ári náðist mun meiri árangur en á árinu þar á undan. Þetta má bæði þakka meira samhengi einstakra efnisþátta áætlunarinnar og djúptækum áhrifum þeirrar miklu ólgu sem lætur engan á jörðunni ósnortinn.

Aðstæðurnar við upphaf þessa nýja árs eru í senn tvísýnar, ögrandi og sérstæðar. Allt síðasta ár einkenndist af hverri kreppunni á fætur annarri sem náðu hámarki í styrjöldinni í Miðausturlöndum. Merking þessara atburða er ekki síður mikilvæg fyrir framþróun samfélags hins mesta nafns en þess ytra samfélags sem hnattvæðist óðfluga mitt í fæðingarhríðum ofsafenginna umbreytinga. Af eðlilegum ástæðum er ekki hægt að segja fyrir um tíma, umfang eða stefnu þessara umbreytinga. Hversu ofurskjótt breytist ekki heimurinn á okkar tímum! Átökin sem koma í kjölfar þessara breytinga og ná með svo eftirtektarverðum hætti til landanna, þar sem saga málstaðarins mótaðist, minna enn á ný á þau varnaðarorð Bahá’u’lláh að “veröldin hefur gengið úr skorðum vegna gagngerra áhrifa þessa mesta, þessa nýja heimsskipulags.". Það er einkar athyglisvert að þessi kreppa skuli hafa bein áhrif á landssvæði sem býr að jafn ríkum bahá’í arfi og Írak.

Uppnámið, sem þessar jafnt sem aðrar aðstæður í heiminum hafa valdið, opnar nýjan kafla í sögu hins mikilsvirta en skelfilega kúgaða bahá’í samfélags í landi þar sem opinberandi Guðs fyrir okkar tíma dvaldi í heilan áratug. Hinsvegar hafa þau gert að engu undirbúning fyrir níunda heimsþingið í heimsmiðstöð trúar okkar. Þótt vonbrigðin séu mikil ættu þessir atburður ekki að valda okkur neinum ótta. Engum ætti að blandast hugur um að þegar hin meiri áætlun Guðs fer á skjön við hina minni mun forsjón hans á tilsettum tíma opna nýja leið mikilla möguleika til hagsbóta fyrir dýrlegan málstað hans.

Sorgin, óttinn og ráðleysið sem þessi síðustu átök hafa valdið á braut hins minni friðar auka reiði og umkvörtunarefni þegar hver kreppan af annarri veldur umróti á jörðinni. Áhyggjur fólks um allan heim birtast opinberlega í heiftugum mótmælaaðgerðum sem eru of yfirþyrmandi til að hægt sé að virða þær að vettugi. Málefnunum sem verið er að mótmæla og tilfinningarnar sem þau vekja auka oft þann glundroða og öngþveiti sem menn vonast til að leysa með almennum aðgerðum af þessu tagi. Vinir Guðs hafa fengið óræka skýringu á því sem er að gerast; þeir þurfa aðeins að minnast þeirrar sýnar og þeirra meginreglna sem trúin hefur sett fram til að svara með áhrifamiklum hætti þeim ögrunum sem vaxandi ótti og áhyggjur hafa í för með sér. Þeir geta öðlast aukinn skilning á viðkomandi kenningum með því að lesa bréf Shoghi Effendi sem hafa verið birt í „The World Order of Bahá'u'lláh“ (Heimsskipan Bahá’u’lláh), sérstaklega þau sem nefnast “The Goal of a New World Order” (Takmark nýs heimskipulags), „America and the Most Great Peace“ (Ameríka og hinn mesti friður) og „The Unfoldment of World Civilization“ (Þróun nýrrar heimsmenningar).

Meðan heimurinn heldur áfram á róstusamri braut, hefur fimm ára áætlunin öðlast hæfni til að gera samfélagi okkar kleift að taka stór skref áleiðis að því meginmarkmiði að flýta fyrir hópinngöngu. Nánari skýringar á uppörfandi stöðu þeirra mála fyrir trúna í öllum fimm heimsálfum hafa þegar verið gefnar í bréfi okkar dagsettu 17. janúar og við hvetjum ykkur til að lesa það nánar. Aðeins þarf að leggja áherslu á nokkur lykilatriði: Skiptingu landa í umdæmi er lokið í 179 löndum; þessir sáðreitir útbreiðslunnar eru nú um 17,000 talsins. Umdæmissamkomur eru nú þegar orðnar að öflugu tæki til að sameina hugsanir og gerðir meðal stofnana og svæða; þau hafa verið stofnunum og einstaklingum öflug hvatning í gagnkvæmum anda stuðnings. Námshringirnir hafa sannað betur en fyrr endurskapandi mátt sinn til útbreiðslu og treystingar. Grunnþættir áætlunarinnar hafa náð umfangi sem skarar langt fram úr því sem gerðist á síðasta ári. Árangurinn er sá að vaxandi fjöldi átrúenda er nú orðinn virkur í kennslu og stjórnunarstarfi um allan heim og sýnir anda fullvissu sem smitar út frá sér og eykur eldmóð þeirra. Unglingar og börn hafa á kerfisbundnari hátt en fyrr tekið þátt í áætlunum samfélagsins, og þeir sem standa utan trúarinnar hafa í auknum mæli tekið þátt í námshringjum, bænafundum og barnakennslu. Sú staðreynd hlýjar okkur um hjartarætur að á þeim skamma tíma sem liðinn er frá upphafi áætlunarinnar, hafa þessir þrír grunnþættir verið ræktaðir á kerfisbundinn hátt og þeim hefur fjölgað í samfélögum þar sem þeim var áður aðeins sinnt endrum og eins. Hér er því komin stöðumynd af heimssamfélagi sem er einbeitt og á hreyfingu sem aldrei fyrr.

Jafnframt því sem þetta vaxtarmynstur skaut rótum í starfsemi áætlunarinnar á síðasta ári hefur önnur mikilvæg þróun átt sér stað á ýmsum sviðum. Í ytra starfi hafa stofnanir alþjóðlega bahá’í samfélagsins tekið þátt í starfsemi sem er of fjölþætt og margbreytileg til að hægt sé að gera henni skil hér. Uppsöfnuðu áhrifin eru þó svo áhrifamikil að þau verður að nefna. Hápunkturinn í þeirri starfsemi voru boðin sem við beindum sl. apríl til trúarleiðtoga heimsins. Þau hafa orðið ný hvatning í þeirri viðleitni bahá’í samfélagsins að vekja athygli áhrifamestu aðila þjóðfélagsins á málefnum sem hafa úrslitaþýðingu til að tryggja heimsfrið. Með samræmingarstarfi upplýsingamiðstöðvar bahá’í samfélagsins og virkum viðbrögðum andlegra þjóðarráða var boðunum dreift á skömmum tíma til æðstu manna og stétta í trúarsamfélögum um allan heim. Tilgangurinn með þessu átaki var að vekja athygli allra sem málið varðaði á brýnni þörf fyrir trúarlega forystu í umfjöllun um trúarfordóma, sem verða stöðugt meiri ógn við mannlega velferð. Tafarlaus viðbrögð margra viðtakenda benda til þess að boðin séu tekin alvarlega og á sumum stöðum hafa þau jafnvel skapað ný viðhorf til samtrúarstarfsemi.

Vel hefur miðað áfram á sviði félags- og efnahagsþróunar og enn dýpri spor verið mörkuð, bæði af einstaklingum og stofnunum, í innra starfi og samstarfi við aðrar stofnanir. Skrifstofa félags- og efnahagsþróunar skýrir frá því að á öðru ári áætlunarinnar hafi átta nýjum þróunarstofnunum verið komið á fót undir bahá’í áhrifum og þær starfa á fjölbreyttum sviðum svo sem í kvenréttinda- og heilbrigðismálum, landbúnaði, menntun barna og eflingu ungmenna.

Í landinu helga var ensk þýðing á arabískum pistli Bahá'u'lláh sem þekktur er undir nafninu Javahiru'l-Asrar gefinn út undir heitinu „Gems of Divine Mysteries“ (Gimsteinar guðlegrar visku). Enduruppbyggingu fangaklefa Bahá'u'lláh í fangelsinu í 'Akká er lokið og vinna hafin við það sem eftir er af efri hæð fangelsisins. Frá og með næsta pílagrímatímabili sem hefst í október 2003 verður pílagrímum í hverjum hópi fjölgað úr 150 í 200.

Auk þess hefur viðleitni í þá átt að að þróa stofnanir við heimsmiðstöðuna komið sérstaklega vel í ljós í viðgangi stofnunar Huqúqu'lláh undir virtri forystu trúnaðarmannsins, handar málstaðar Guðs 'Alí-Muhammad Varqá. Með stöðugri viðleitni hefur Dr. Varqá haft forgöngu um uppfræðslu vinananna hvarvetna varðandi lögin um Huqúqu'lláh. Á áratugnum sem liðinn er síðan þessi lög tóku gildi um allan heim hefur kerfi þjóðlegra og svæðisbundinna ráða trúnaðarmanna orðið til sem sér um samræmingu og mótar stefnu í þjónustu við aukinn fjölda fulltrúa Réttar Guðs. Þekking á þessum máttugu lögum hefur breiðst út víða og vinir í öllum heimsálfum hafa brugðist við í anda helgunar, sem trúnaðarmennirnir vona að muni snerta þá sem ekki hafa nú þegar fært sér í nyt þá fyrirheitnu blessun sem streymir yfir þá sem hlýða þessum lögum.

Á þeim tæplega tveimur árum sem liðin eru síðan við kynntum sérstaka nauðsyn á fjárhagsaðstoð til viðeigandi viðhalds á byggingum og görðum við heimsmiðstöðina, hefur eignasjóður heimsmiðstöðvarinnar verið stofnaður. Enn sem komið er nægja framlög ekki fyrir árlegum þörfum. Við höfum samt sem áður talið okkur skylt að leggja til hliðar fimm milljónir dollara, sem okkur hafa borist, sem sérmerkt framlag til að byggja upp stofn sem tekjulind, helgaða upphaflega áforminu. Við höfum gert þetta með því að flytja fé frá bahá’í alþjóðasjóðnum til að mæta nauðsynlegum útgjöldum og jafnframt frestað starfsemi á öðrum sviðum sem eðlilegt hefði verið að sinna.

Það gleður okkur að geta tilkynnt að andlegu þjóðarráði Chile hafa borist 185 tillögur frá arkitektum og hönnuðum um allan heiminn að móðurmusteri Suður-Ameríku, sem rísa á í Santiago. Lokahugmyndin verður kynnt á tilsettum tíma.

Kæru vinir: Við erum þakklátir fyrir traustan vitnisburð um framfarir sem orðið hafa vítt og breitt um heiminn og treystum á áframhaldandi staðfestingu hins æðsta Drottins okkar yfir helgaðri viðleitni ykkar innan ramma fimm ára áætlunarinnar – áætlunar sem er gerð til að mætum þörfum þessara tíma. Megi þolgæði ykkar við framkvæmd hennar leysa úr læðingi þau öfl sem með náð og hylli Abhá fegurðarinnar geta hraðað hópinngönguferlinu í öllum löndum.

Allsherjarhús réttvísinnar

Table of Contents: Albanian :Arabic :Belarusian :Bulgarian :Chinese_Simplified :Chinese_Traditional :Danish :Dutch :English :French :German :Hungarian :Íslenska :Italian :Japanese :Korean :Latvian :Norwegian :Persian :Polish :Portuguese :Romanian :Russian :Spanish :Swedish :Turkish :Ukrainian :