Announcing: BahaiPrayers.net


More Books by bænir

Andleg lausn
Andleg ráð
Andlegir eiginleikar
Aukadagarnir
Aðstoð
Bahá’í bænir-Íslenska
Bænir fyrir látnum
Börn og unglingar
Eining
Eldtaflan
Erfiðleikar og mótlæti
Fastan
Fjölskyldur
Fundir
Fyrirgefning
Græðing
Hjálp í mótlæti
Hjónaband
Kennsla og þjónusta
Kvöldbænir
Lengri skyldubænin
Lengsta skyldubænin
Lofgjörð og þökk
Mannkynið
Miskunn
Morgunbænir
Naw-Rúz
Réttur Guðs
Sigur málstaðarins
Sjóðurinn
Staðfesta
Stutta skyldubænin
Sáttmálinn
Tafla Ahmads
Tafla Hins heilaga sæfara
Vernd
Vitjunartafla
Free Interfaith Software

Web - Windows - iPhone
bænir : Lofgjörð og þökk
Lofgjörð og þökk (#8373)
Sæll er staðurinn og húsið
og svæðið og borgin
og hjartað og fjallið
og athvarfið og hellirinn
og dalurinn og landið
og hafið og eyjan
og sléttan þar sem
Guðs hefur verið minnst
og lofgjörð Hans vegsömuð
-Bahá'u'lláh
-----------------------
Lofgjörð og þökk (#1708)

Allt lof sé Þér, ó Guð minn, sem ert uppspretta allrar dýrðar og tignar, mikilleika og heiðurs, alræðis og yfirráða, göfgi og náðar, lotningar og valds. Hvern sem Þú vilt lætur Þú laðast að hinu mesta hafi og hverjum sem Þú kýst veitir Þú þann heiður að þekkja Þitt elsta nafn. Enginn á himnum eða jörðu fær staðið gegn Þínum allsráðandi vilja. Um eilífð hefur Þú stjórnað gervallri sköpuninni, og Þú munt að eilífu ríkja yfir öllu sem skapað er. Enginn er Guð nema Þú, hinn almáttugi og háleitasti, hinn alvoldugi og alvísi.

Uppljóma, ó Drottinn, andlit þjóna Þinna að þeir fái litið Þig augum, og skír hjörtu þeirra svo þeir leiti til forgarðs Þinnar himnesku hylli og viður­kenni Hann sem er opinberandi sjálfs Þín og dags­brún kjarna Þíns. Vissulega ert Þú Drottinn allra veraldanna. Þú einn ert Guð, hinn óhefti, sá er öllu ræður.

-Bahá'u'lláh
-----------------------
Lofgjörð og þökk (#1709)

Í nafni Guðs, hins hæsta! Vegsamaður og dýr­legur sért Þú, Drottinn, Guð alvaldur. And­spænis visku Þinni fallast hinum vitru hendur, frammi fyrir þekkingu Þinni játa hinir lærðu fá­fræði sína, gagnvart mætti Þínum verða hinir sterku van­megna, gegnt auðlegð Þinni bera hinir ríku vitni fátækt sinni, frammi fyrir ljósi Þínu týnast hinir upplýstu í myrkri, í átt til helgireits þekkingar Þinnar snýr kjarni alls skilnings og um griðastað návistar Þinnar hringsóla sálir alls mann­kyns.

Hvernig get ég þá sungið og sagt frá kjarna Þínum sem viska hinna vitru og lærdómur hinna lærðu geta eigi skilið, því að enginn maður getur vegsamað það sem hann eigi skilur né skýrt frá því sem hann eigi fær höndlað, en Þú hefur aftur á móti verið hinn ótilkvæmilegi, hinn órannsakan­legi. Þótt mig skorti mátt til að rísa til himins dýrðar Þinnar og svífa í ríkjum þekkingar Þinnar, get ég ekki annað en sagt frá táknum Þínum sem eru talandi vottur um dýrlegt handarverk Þitt.

Við dýrð Þína! Ó ástvinur allra hjartna, Þú sem einn getur linað sársauka þrárinnar eftir Þér! Þótt allir íbúar himins og jarðar sameinuðust til að gera dýrlegt hið minnsta af táknum Þínum, þar sem Þú opinberar sjálfan Þig, myndi þeim samt ekki takast það, hversu miklu síður lofa Þitt heilaga orð, skapara allra tákna Þinna.

Allt lof og dýrð sé Þér, ó Þú sem allt sem skapað er vitnar um að ert einn, að enginn er Guð nema Þú, upphafinn frá eilífu yfir allan samanburð eða líkingu og verður það áfram að eilífu. Allir kon­ungar eru aðeins þjónar Þínar og allar verur, sýnilegar og ósýnilegur, eru sem hjóm frammi fyrir Þér. Enginn er Guð nema Þú, hinn náðugi og voldugi, hinn hæsti.

-Bahá'u'lláh
-----------------------
Lofgjörð og þökk (#10178)

Við dýrð Þína! Í hvert sinn sem ég horfi til himins minnist ég hátignar Þinnar og göfgi, óviðjafnanlegrar dýrðar og mikilleika. Og í hvert sinn sem ég beini augum að jörðu Þinni birtast mér vitnisburðir um vald Þitt og tákn um gjafir Þínar. Og þegar ég horfi á hafið, talar það til mín um tign Þína og afl máttar Þíns, um drottinvald Þitt og mikilleika. Og ætíð þegar ég virði fyrir mér fjöllin, sé ég þar fána sigurs og alveldis. Ég sver við mátt Þinn, ó Þú sem hefur í hendi Þér forlög alls mannkyns og örlög þjóðanna! Svo hugfanginn er ég af ást til Þín og svo ölvaður af víni einingar Þinnar að ég heyra vindinn hvísla Þér lof og vegsömun. Í kliði vatnsins heyri ég röddina sem segir frá dyggðum Þínum og eigindum og skrjáf laufsins skýrir mér frá leyndardómunum sem þú hefur óafturkallanlega ákvarðað í ríki Þínu.

-Bahá'u'lláh
-----------------------
Lofgjörð og þökk (#1710)

Vegsamað sé nafn Þitt, ó Drottinn Guð minn! Þú ert sá sem tilbeðinn er af öllu, en ekki til­biður neitt, Drottinn alls en ekki þjónn neins, þekkir allt en ert öllu dulinn. Þú vildir kunngera Þig mönnunum. Því gafst Þú sköpuninni líf með orði af vörum Þér og mótaðir alheiminn. Enginn er Guð nema Þú, völundurinn, skaparinn, hinn al­máttugi og voldugasti.

Ég sárbið Þig við það sama orð sem ljómað hefur yfir sjónarhring vilja Þíns, að gera mér kleift að teyga af því lifandi vatni sem Þú lífgaðir með hjörtu Þinna útvöldu og fjörgaðir sálir þeirra sem elska Þig, svo ég megi ætíð og hvernig sem á stendur snúa ásjónu minni að Þér einum.

Þú ert Guð valds, dýrðar og örlætis. Enginn er Guð nema Þú, hinn æðsti stjórnandi og aldýrlegi, hinn alvitri.

-Bahá'u'lláh
-----------------------
Lofgjörð og þökk (#1711)

Lofaður sért Þú, ó Drottinn, Guð minn! Í hvert sinn sem ég reyni að nefna Þig, er mér varnað máls vegna upphafningar stöðu Þinnar og yfir­þyrm­andi mikilleika máttar Þíns. Þótt ég lofaði Þig um alla víðáttu ríkis Þíns jafn lengi og yfirráð Þín vara, kæmist ég að raun um að lofgjörð mín til Þín hæfði aðeins þeim sem líkjast mér, eru sjálfir skepnur Þínar sem hafa orðið til fyrir vald ákvörð­unar Þinnar og verið mótaðir af mætti vilja Þíns.

Og hvenær sem penni minn eignar einhverju nafna Þinna dýrð, er mér sem ég heyri rödd þess harmþrungna vegna fjarlægðar frá Þér og skynja að það grætur vegna aðskilnaðar frá sjálfi Þínu.

Ég ber því vitni að allt nema Þú er sköpun Þín og fólgið í greip Þinni. Að Þú takir við nokkurri gjörð eða lofi frá skepnum Þínum er ekki annað en sönnun fyrir undrum náðar Þinnar og örlátrar hylli og opinberun veglyndis Þíns og forsjár.

Ég sárbæni Þig, ó Drottinn minn, við Þitt æðsta nafn, sem Þú greindir með ljós frá eldi og sannleika frá afneitun, að senda yfir mig og þá af mínum elskuðu sem eru í félagsskap mínum gæði þessa heims og þess sem kemur. Veit okkur því af undur­samlegum gjöfum Þínum sem eru huldar sjónum manna. Vissulega ert Þú skapari alls sem er. Eng­inn er Guð nema Þú, hinn almáttugi og aldýrlegi, hinn hæsti.

-Bahá'u'lláh
-----------------------
Lofgjörð og þökk (#1713)

Ó Þú Drottinn hins sýnilega og ósýnilega og sá, sem uppfræðir alla sköpunina. Ég sárbæni Þig við yfirráð Þín, sem hulin eru sjónum manna, að opinbera á alla vegu tákn Þinna margföldu blessana og ummerki ástúðar Þinnar, svo að ég megi rísa upp fagnandi og frá mér numinn og lofa undur­samlegar dyggðir Þínar, ó Þú hinn mis­kunnsamasti, og hreyfa með nafni Þínu við öllu sem skapað er og glæða svo eld lofgjörðar Þinnar meðal skepna Þinna, að gjörvallur alheimurinn megi fyllast birtunni frá ljósi dýrðar Þinnar og öll veröldin upptendrist af eldi málstaðar Þíns.

Vef því eigi saman, ó Drottinn minn, sem breitt hefur verið út í Þínu nafni og slökk eigi lampann, sem Þinn eigin eldur hefur tendrað. Meina ekki vatn­inu, sem er lífið sjálft, ó Drottinn minn, að streyma niður, en í klið þess má heyra hljómana un­dur­samlegu, sem lofa Þig og vegsama. Neita eigi heldur þjónum Þínum um sætan ilminn af and­blænum, sem bærst hefur vegna ástar Þinnar. Þú sérð, ó Þú sem ert aldýrlegur ástvinur minn, eirð­arlausar öldurnar sem rísa á hafi hjarta míns í ást minni og þrá eftir Þér. Ég bið Þig við tákn hátignar Þinnar og vitnisburð yfirráða Þinna, að yfirbuga þjóna Þína með þessu nafni, sem Þú hefur gert að konungi allra nafna í ríki sköpunar Þinnar. Þú ert þess megnugur að ríkja að vild Þinni. Enginn er Guð nema Þú, hinn aldýrlegi, hinn gjafmildasti. Fyrirhuga Þú ennfremur hverjum þeim, sem hefur leitað til Þín, það sem gera mun hann svo staðfastan í málstað Þínum, að hvorki fánýtir hug­arórar hinna trúlausu meðal skepna Þinna né ónytjumælgi hinna vegvilltu meðal þjóna Þinna megni að útiloka hann frá Þér. Þú ert í sannleika hjálpin í nauðum, hinn almáttugi og voldugasti.

-Bahá'u'lláh
-----------------------
Lofgjörð og þökk (#1714)

Ó Guð. Minning Þín er unaður sálna allra þeirra er þrá Þig. Nafn Þitt vekur fögnuð í hjörtum þeirra sem eru heilshugar helgaðir vilja Þínum. Lof til Þín er hjartfólgið þeim sem hafa laðast að aðsetri Þínu. Ásýnd Þína þrá þeir heitt og innilega, sem hafa borið kennsl á sannleik Þinn. Prófraunir Þínar græða meinsemdir þeirra sem hafa viðurkennt málstað Þinn. Þrengingar Þínar þrá þeir heitast sem engum vilja fylgja nema Þér!

Upphafinn, ómælanlega upphafinn ert Þú! Í Þín­um höndum er vald alls á himnum og á jörðu. Fyrir aðeins eitt orð af vörum Þér sundraðist allt og leið allt undir lok, og fyrir annað orð var allt sem var aðskilið sameinað á ný! Miklað veri nafn Þitt, ó Þú sem hefur vald yfir öllu sem er á himnum og öllu sem er á jörðu. Yfirráð Þín ná til alls í himnaríki opinberunar Þinnar og ríki sköpunar Þinnar. Eng­inn fær jafnast á við Þig í Þínum skapaða heimi. Enginn getur borið sig saman við Þig í þeim alheimi sem Þú hefur mótað. Enginn hugur hefur skilið Þig og engin sál náð til Þín með vonir sínar. Ég sver við mátt Þinn! Enginn maður getur farið yfir þau mörk sem hin skapaða tilvist hefur sett honum, jafnvel þótt hann gæti svifið á hverjum þeim vængjum sem hann fengi um alla ómælis­víðáttu þekkingar Þinnar um alla eilífð verundar Þinnar. Hvernig gæti þá slíkur maður gert sér vonir um að fá svifið inn í andrúm Þinnar tignustu nær­veru?

Sá er að sönnu gæddur skilningi sem viðurkennir vanmátt sinn og játar syndsemi sína, því ef nokkur sköp­uð vera gerði kröfu til tilvistar andspænis óend­an­legum undrum opinberunar Þinnar, þá væri slíkt guðlastandi tilkall svívirðilegra en nokkur annar glæp­ur í öllum ríkjum uppfinninga Þinna og sköp­unar. Hver er sá, ó Drottinn minn, sem hefur vald til að gera tilkall til verundar þegar Þú birtir fyrstu geisl­ana af táknum Þinna yfirskilvitlegu yfirráða og máttar? Tilveran sjálf er sem hjóm and­spænis miklum og margföldum undrum Þíns óvið­jafnanlega sjálfs.

Hátt, óendanlega hátt, ert Þú hafinn yfir allt, ó Þú sem ert konungur konunga! Ég sárbæni Þig við Þitt eigið sjálf og við opinberendur málstaðar Þíns og dagsbrúnir yfirráða Þinna, að rita niður fyrir okkur það sem Þú ritaðir niður fyrir Þína útvöldu. Synja okkur ekki um það sem Þú ákvarðaðir Þínum útvöldu, sem hröðuðu sér til Þín jafnskjótt og þeim barst kall Þitt og vörpuðu sér niður í tilbeiðslu frammi fyrir augliti Þínu þegar ljóminn af birtu ásjónu Þinnar skein á þá.

Við erum þjónar Þínir, ó Drottinn minn, og í höndum valds Þíns. Ef Þú hirtir okkur á sama hátt og fyrri og síðari kynslóðir, væri dómur Þinn vissu­lega réttlátur og gerð Þín lofsverð. Þú ert þess megnugur að gera það sem Þér líst. Enginn er Guð nema Þú, hinn almáttugi, hinn aldýrlegi, hjálpin í nauðum, hinn sjálfumnógi.

-Bahá'u'lláh
-----------------------
Lofgjörð og þökk (#1715)

Guð vitnar um einingu guðdóms síns og ein­stæði eigin verundar. Frá hásæti eilífðar og úr ótilkvæmilegum hæðum stöðu Hans, lýsir rödd Hans því yfir, að enginn sé Guð nema Hann. Hann sjálfur, óháður öllu öðru, hefur ætíð vitnað um eigið einstæði, birt eigið eðli og vegsamað kjarna sinn. Hann er vissulega hinn alvoldugi og almáttugi, hinn alfagri.

Hann er æðri þjónum sínum og ofar skepnum sínum. Í hendi sér hefur Hann uppsprettu valds og sannleika. Hann lífgar menn með táknum sínum og vegur þá með reiði sinni. Hann verður ekki spurður um gerðir sínar, máttur Hans er jafnoki alls sem er. Hann er hinn voldugi, sá er öllu ræður. Hann heldur í greip sinni veldi alls sem er og ríki opinberunar Hans er grundvallað Honum til hægri handar. Vald Hans umlykur í sannleika allt sköp­un­ar­verkið. Sigur og herradómur eru Hans, allur máttur og yfirráð eru Hans, öll dýrð og mikilleiki eru Hans. Hann er að sönnu hinn al­dýrlegi og voldugasti, hinn óskilyrti.

-Bahá'u'lláh
-----------------------
Lofgjörð og þökk (#1716)

Lofað sé nafn Þitt, ó Guð minn! Ég ber því vitni að engin hugsun um Þig, hversu háleit sem hún er, fær nokkru sinni náð upp til himinhæða þekkingar Þinnar, og engin lofgjörð um Þig, hversu vegsamleg sem hún er getur risið upp til sviða visku Þinnar. Um eilífð hefur Þú verið fjarlægur, langt ofar skilningi og handan seilingar þjóna Þinna, óendanlega upphafinn yfir tilraunir Þinna ánauð­ugu til að tjá dul Þína. Hvaða vald getur skugga­mynd sköpunar eignað sér andspænis Honum sem er hinn óskapaði?

Ég ber því vitni að æðstu hugsanir allra sem til­biðja einingu Þína og dýpsta íhugun allra þeirra sem borið hafa kennsl á Þig, eru aðeins afurð þess sem var skapað með penna skipunar Þinnar og getið af vilja Þínum. Ég sver við dýrð Þína, ó Þú sem ert sálu minni ástfólginn og uppspretta lífs míns! Ég veit með vissu að mig brestur getu til að lýsa Þér og lofsyngja svo sæmi mikilleika dýrðar Þinnar og ágæti tignar Þinnar. Þar sem mér er þetta kunnugt, bið ég Þig í auðmýkt við miskunn Þína sem er æðri öllu sem skapað er og náð Þína sem umvefur gjörvalla sköpunina, að veita því viðtöku frá þjónum Þínum sem þeir geta lagt af mörkum á vegi Þínum. Hjálpa þeim einnig með styrkjandi náð Þinni að upphefja orð Þitt og útbreiða lof um Þig.

Vald hefur Þú til að gera það sem Þér þóknast. Þú ert að sönnu hinn aldýrlegi og alvísi.

-Bahá'u'lláh
-----------------------
Lofgjörð og þökk (#1717)

Guð minn, Þú sem ég tilbið og dái, hinn vold­ugasti! Ég ber því vitni að ekkert sem skapað er getur nokkru sinni tjáð Þig og engin lofgjörð lýst Þér. Enginn í alheimi getur með skiln­ingi sínum eða vitsmunum fengið inngöngu í heilagan forgarð Þinn né afhjúpað dul Þína svo Þér hæfi. Hvaða synd hefur haldið íbúum borgar nafna Þinna svo fjarri Þínum al-dýrlega sjóndeildarhring og svipt þá aðgangi að Þínu æðsta hafi? Einn stafur í bók Þinni er móðir allrar tjáningar og eitt orð þeirrar bókar fæðir af sér alla sköpun. Hvaða vanþakklæti hafa þjónar Þínir sýnt að Þú haldir þeim, öllum sem einum, frá þekkingu á Þér? Dropi úr úthafi miskunnar Þinnar nægir til að slökkva loga vítis og neisti af eldi ástar Þinnar getur kveikt í heilli veröld.

Ó Þú sem ert hinn alvitri! Vegvillt sem við erum, höldum við þó fast við gjafmildi Þína, og þótt við séum fáfróð beinum við augum okkar að úthafi visku Þinnar. Þú ert hinn örlátasti, sem ekki lætur aragrúa synda aftra Þér frá að auðsýna örlæti Þitt, og afneitun þjóða jarðar getur ekki stöðvað flóð gjafa Þinna. Um eilífð hafa dyr náðar Þinnar staðið upp á gátt. Daggardropi úr úthafi miskunnar Þinn­ar getur prýtt allt sem er djásni heilagleika og úði úr vötnum örlætis Þíns getur fært allri sköpun sönn auðæfi.

Lyft ekki hulunni, ó Þú sem ert hyljandinn! Um eilífð hafa sannindamerki örlætis Þíns umlukið al­heim­inn og ljómi Þíns æðsta nafns hefur skinið á allt sem skapað er. Synja Þú ekki þjónum Þínum um undur náðar Þinnar. Lát þá verða Þín vara svo að þeir beri einingu Þinni vitni, og ger þeim kleift að þekkja Þig svo þeir megi hraða sér til Þín. Mis­kunn Þín hefur umvafið alla sköpun og náð Þín gagntekur allt. Af holskeflunum á úthafi örlætis Þíns birtust höf eldmóðs og ákefðar. Þú ert það sem Þú ert. Ekkert nema Þú verðskuldar að þess sé minnst nema það komist í skugga Þinn og fái inngöngu í forgarð Þinn.

Hvert sem hlutskipti okkar verður leitum við Þinnar ævafornu fyrirgefningar, og biðjum um Þína gagntakandi náð. Von okkar er sú, að Þú munir ekki neita neinum okkar um náð Þína né svipta nokkra sál djásnum sanngirni og réttlætis. Þú ert konungur alls örlætis og Drottinn allrar hylli, æðri öllum á himnum og jörðu.

-Bahá'u'lláh
-----------------------
Lofgjörð og þökk (#1718)

Miklað sé nafn Þitt, ó Þú sem hefur í greip Þér stjórntauma sálna allra þeirra sem borið hafa kennsl á Þig. Í hægri hendi Þinni eru örlög allra á himnum og jörðu. Í krafti máttar Þíns breytir Þú að vild Þinni og ákvarðar í krafti vilja Þíns það sem Þér þóknast. Vilji einbeittustu manna verður að engu sé hann borinn saman við knýjandi sann­indamerki um vilja Þinn, og staðfesta hinna ósveigjanlegustu meðal skepna Þinna er sem hjóm andspænis margföldum opinberunum áforms Þíns.

Þú ert sá sem með orði frá vörum Þér hefur hrifið svo hjörtu Þinna útvöldu, að þeir hafa í ást sinni á Þér slitið sig frá öllu nema Þér, lagt líf sitt í sölurnar, fórnað sálu sinni á vegi Þínum, og þolað Þín vegna það sem engin skepna fær afborið.

Ég er ein þjónustumeyja Þinna, ó Drottinn minn! Ég hef beint augum mínum að híbýlum miskunnar Þinnar og leitað undra margfaldra vel­gjörða Þinna, því allir limir líkama míns lýsa takmarkalausu örlæti Þínu og óendanlegri náð.

Ó Guð. Ásýnd Þín er mér tilbeiðsluefni, fegurð Þín er mér helgidómur, forgarður Þinn takmark mitt, að minnast Þín er ósk mín, umhyggja Þín er mér hugsvölun, kærleikur Þinn hefur getið mig, lof um Þig er félagi minn, nálægð Þín er von mín og nær vera Þín er heitasta þrá mín og æðsta eftir­langan. Vald mér ekki vonbrigðum, þess bið ég Þig, með því að meina mér það sem Þú ákvarðaðir hinum útvöldu meðal þjónustumeyja Þinna, og sjá mér fyrir gæðum þessa heims og hins næsta.

Þú ert að sönnu Drottinn sköpunarinnar. Enginn er Guð nema Þú, sá sem ætíð fyrirgefur, hinn örlátasti.

-Bahá'u'lláh
-----------------------
Lofgjörð og þökk (#1712)

Þér sé öll tign og dýrð, ó Guð minn, allt veldi og ljós, mikilleiki og dýrðarljómi. Þú veitir yfirráð hverjum sem Þú vilt og meinar þau hverjum sem Þér þóknast. Enginn er Guð nema Þú, eigandi alls, hinn upphafnasti. Þú ert sá sem skapaðir alheiminn og allt sem í honum er úr alls engu. Ekkert er Þér verðugt nema Þú sjálfur og allir nema Þú eru sem úrhrök í heilagri návist Þinni og sem alls ekkert í samanburði við dýrð Þinnar eigin verundar.

Fjarri sé það mér að vegsama dyggðir Þínar nema með því sem Þú vegsamaðir sjálfan Þig í þungvægri bók Þinni „Engin sýn skynjar Hann, en Hann sér alla sýn. Hann er hinn fíngjörvi, sá sem allt skynjar.“¹ Dýrð sé Þér, ó Guð minn. Að sönnu getur enginn hug­ur eða auga, hversu skarpt og glöggskyggnt sem það er, nokkru sinni skilið eðli hins minnsta af táknum Þínum. Sannlega ert Þú Guð, enginn er Guð nema Þú. Ég ber því vitni að Þú ert sjálfur eina tjáning eiginda Þinna, að engin vegsömun getur nokkru sinni náð til Þíns heilaga forgarðs nema Þín eigin vegsömun og enginn nema Þú sjálfur getur nokkru sinni skilið eigindir Þínar.

Dýrð sé Þér, Þú ert upphafinn yfir lýsingu allra nema sjálfs Þín því það er ofar huga mannsins að mikla með viðeigandi hætti dyggðir Þínar eða skilja innsta veruleika kjarna Þíns. Fjarri sé það dýrð Þinni, að skepnur Þínar geti lýst Þér eða nokkur annar en Þú sjálfur geti nokkru sinni þekkt Þig. Ég hef þekkt Þig, ó Guð minn, vegna þess að Þú veittir mér þekkingu á Þér og hefðir Þú ekki opinberast mér, hefði ég ekki þekkt Þig. Ég tilbið Þig vegna þess að Þú kallaðir mig til Þín og hefðir Þú ekki kallað mig hefði ég ekki tilbeðið Þig.

* ¹ Kóraninn 6:103
-Bábinn
-----------------------

Table of Contents: Albanian :Arabic :Belarusian :Bulgarian :Chinese_Simplified :Chinese_Traditional :Danish :Dutch :English :French :German :Hungarian :Íslenska :Italian :Japanese :Korean :Latvian :Norwegian :Persian :Polish :Portuguese :Romanian :Russian :Spanish :Swedish :Turkish :Ukrainian :