Announcing: BahaiPrayers.net


More Books by bænir

Andleg lausn
Andleg ráð
Andlegir eiginleikar
Aukadagarnir
Aðstoð
Bahá’í bænir-Íslenska
Bænir fyrir látnum
Börn og unglingar
Eining
Eldtaflan
Erfiðleikar og mótlæti
Fastan
Fjölskyldur
Fundir
Fyrirgefning
Græðing
Hjálp í mótlæti
Hjónaband
Kennsla og þjónusta
Kvöldbænir
Lengri skyldubænin
Lengsta skyldubænin
Lofgjörð og þökk
Mannkynið
Miskunn
Morgunbænir
Naw-Rúz
Réttur Guðs
Sigur málstaðarins
Sjóðurinn
Staðfesta
Stutta skyldubænin
Sáttmálinn
Tafla Ahmads
Tafla Hins heilaga sæfara
Vernd
Vitjunartafla
Free Interfaith Software

Web - Windows - iPhone
bænir : Fastan
Fastan (#1767)

*Í Kitáb-i-Aqdas segir: „Vér höfum boðið yður að biðja og fasta frá upphafi fullþroska (15 ára aldri); þetta er ákvarðað af Guði, Drottni yðar og Drottni feðra yðar. . . . Ferðalangurinn, hinn sjúki, konur, sem eru barnshafandi eða hafa barn á brjósti, þurfa ekki að fasta. . . . Neytið hvorki matar né drykkjar frá sólarupprás til sólseturs, og varist að láta ástríðu svifta yður þeirri náð, sem áformuð er í þessari bók.“

*Fastan er frá 2. mars til 20. mars, að báðum dögum meðtöldum.

Ég sárbæni þig, ó Guð minn, við þitt volduga tákn og við opinberun náðar þinnar meðal manna að varpa mér ekki frá borgarhliði návistar þinnar og bregðast ekki þeim vonum sem ég hef sett á birtingu náðar þinnar á meðal skepna þinna. Þú sérð mig, ó Guð minn, halda í nafn þitt, hið helgasta og skærasta, máttugasta og æðsta, upphafnasta og dýrlegasta, og taka föstu taki um fald þess kyrtils sem allir í þessum heimi og þeim sem kemur hafa tekið í.

Ég sárbæni þig, ó Guð minn, við ljúfustu rödd þína og upphafnasta orð þitt að laða mig nær fordyri þínu og láta mig ekki vera fjarri forsælu náðar þinnar og tjaldhimni hylli þinnar. Þú sérð mig, ó Guð minn, halda í nafn þitt, hið helgasta og skærasta, máttugasta og æðsta, upphafnasta og dýrlegasta, og taka föstu taki um fald þess kyrtils sem allir í þessum heimi og þeim sem kemur hafa tekið í.

Ég sárbæni þig, ó Guð minn, við ljósið frá geislandi brún þinni og birtuna frá ásýnd þinni, sem skín frá hinum æðsta sjónarhring, að laða mig með ilmi klæða þinna og láta mig drekka af úrvals víni orða þinna. Þú sérð mig, ó Guð minn, halda í nafn þitt, hið helgasta og skærasta, máttugasta og æðsta, upphafnasta og dýrlegasta, og taka föstu taki um fald þess kyrtils sem allir í þessum heimi og þeim sem kemur hafa tekið í.

Ég sárbæni þig, ó Guð minn, við hár þitt sem liðast yfir ásýnd þína er upphafnasti penni þinn hreyfist yfir síður taflna þinna og úthellir moskusilmi dulinna merkinga yfir ríki sköpunar þinnar, að gefa mig svo hæfan til þjónustu við málstað þinn að ég muni hvergi hopa og láti ekki svigurmæli þeirra sem hafa deilt á tákn þín og snúið frá ásýnd þinni aftra mér. Þú sérð mig, ó Guð minn, halda í nafn þitt, hið helgasta og skærasta, máttugasta og æðsta, upphafnasta og dýrlegasta, og taka föstu taki um fald þess kyrtils sem allir í þessum heimi og þeim sem kemur hafa tekið í.

Ég sárbæni þig, ó Guð minn, við nafn þitt sem þú hefur krýnt konung nafna og sem heillað hefur alla á himnum og jörðu, að gera mér kleift að líta sól fegurðar þinnar og veita mér af víni orða þinna. Þú sérð mig, ó Guð minn, halda í nafn þitt, hið helgasta og skærasta, máttugasta og æðsta, upphafnasta og dýrlegasta, og taka föstu taki um fald þess kyrtils sem allir í þessum heimi og þeim sem kemur hafa tekið í.

Ég sárbæni þig, ó Guð minn, við tjaldbúð tignar þinnar á efstu tindum og tjaldhiminn opinberunar þinnar á hæstu hæðum, að hjálpa mér náðarsamlega að gera það sem vilji þinn hefur þráð og áform þitt opinberað. Þú sérð mig, ó Guð minn, halda í nafn þitt, hið helgasta og skærasta, máttugasta og æðsta, upphafnasta og dýrlegasta, og taka föstu taki um fald þess kyrtils sem allir í þessum heimi og þeim sem kemur hafa tekið í.

Ég sárbæni þig, ó Guð minn, við fegurð þína sem skín yfir sjónarhring eilífðarinnar, fegurðina sem allt ríki fegurðar laut í tilbeiðslu um leið og hún opinberaðist, vegsamandi hana skærum ómi, að gefa að ég megi deyja öllu sem ég á og lifa öllu sem tilheyrir þér. Þú sérð mig, ó Guð minn, halda í nafn þitt, hið helgasta og skærasta, máttugasta og æðsta, upphafnasta og dýrlegasta, og taka föstu taki um fald þess kyrtils sem allir í þessum heimi og þeim sem kemur hafa tekið í.

Ég sárbæni þig, ó Guð minn, við birtingu nafns þíns, ástvinarins, sem lét hjörtu ástvina þinna gjöreyðast og sálir allra á jörðu taka flugið, að hjálpa mér að minnast þín meðal skepna þinna og vegsama þig í áheyrn fólks þíns. Þú sérð mig, ó Guð minn, halda í nafn þitt, hið helgasta og skærasta, máttugasta og æðsta, upphafnasta og dýrlegasta, og taka föstu taki um fald þess kyrtils sem allir í þessum heimi og þeim sem kemur hafa tekið í.

Ég sárbæni þig, ó Guð minn, við skrjáfið í hinu himneska lótustré og ómþýðan andvara orða þinna í ríki nafna þinna, að fjarlægja mig öllu sem er vilja þínum andstyggð og laða mig nær stöðunni þar sem hann sem er sól tákna þinna hefur ljómað. Þú sérð mig, ó Guð minn, halda í nafn þitt, hið helgasta og skærasta, máttugasta og æðsta, upphafnasta og dýrlegasta, og taka föstu taki um fald þess kyrtils sem allir í þessum heimi og þeim sem kemur hafa tekið í.

Ég sárbæni þig, ó Guð minn, við bókstafinn sem jafnskjótt og hann framgekk af munni vilja þíns lét höfin ólga, vindana blása, ávextina koma í ljós, trén spretta, öll ummerki hins gamla hverfa, allar slæður slitna og þá sem eru helgaðir þér hraða sér til ljóss ásýndar Drottins síns, hins óhefta, að færa mér vitneskju um það sem duldist í fjárhirslum þekkingar þinnar og fólst í hirslum visku þinnar. Þú sérð mig, ó Guð minn, halda í nafn þitt, hið helgasta og skærasta, hið máttugasta og æðsta, upphafnasta og dýrlegasta, og taka föstu taki um fald þess kyrtils sem allir í þessum heimi og þeim sem kemur hafa tekið í.

Ég sárbæni þig, ó Guð minn, við eld ástar þinnar sem rak svefninn burt af brám þinna útvöldu og ástvina þinna og við lofgjörð þeirra og hugsun um þig á morgunstund, að telja mig með þeim sem hafa höndlað það sem þú sendir niður í bók þinni og birtir fyrir vilja þinn. Þú sérð mig, ó Guð minn, halda í nafn þitt, hið helgasta og skærasta, máttugasta og æðsta, upphafnasta og dýrlegasta, og taka föstu taki um fald þess kyrtils sem allir í þessum heimi og þeim sem kemur hafa tekið í.

Ég sárbæni þig, ó Guð minn, við ljós ásýndar þinnar sem knýr þá sem eru nálægir þér til að mæta skeytum ákvörðunar þinnar og þá sem eru helgaðir þér að mæta sverði óvina þinna á vegi þínum, að rita niður fyrir mig með upphafnasta penna þínum það sem þú hefur ritað niður fyrir trúnaðarvini þína og þína útvöldu. Þú sérð mig, ó Guð minn, halda í nafn þitt, hið helgasta og skærasta, máttugasta og æðsta, upphafnasta og dýrlegasta, og taka föstu taki um fald þess kyrtils sem allir í þessum heimi og þeim sem kemur hafa tekið í.

Ég sárbæni þig, ó Guð minn, við nafn þitt sem þú hefur látið hlýða á kall ástvina þinna og andvörp þeirra sem þrá þig og hróp þeirra sem njóta návista við þig og kveinstafi þeirra sem eru helgaðir þér og sem þú hefur látið uppfylla óskir þeirra sem hafa sett vonir sínar a þig og gefið þeim það sem þeir báðu um vegna náðar þinnar og hylli og við nafn þitt sem hefur látið úthaf fyrirgefningar brima frammi fyrir ásýnd þinni og rigna úr skýjum örlætis þíns yfir þjóna þína, að rita niður fyrir hvern þann sem hefur snúið sér til þín og haldið föstuna sem þú fyrirskipaðir endurgjaldið sem ákvarðað er þeim sem ekki mæla nema þeir hafi fengið leyfi þitt og sem yfirgáfu allt sem þeir áttu á vegi þínum og vegna ástar á þér.

Ég sárbæni þig, ó Drottinn minn, við sjálfan þig og tákn þín og skýr ummerki og skínandi ljós sólar fegurðar þinnar og greinar þínar, að ógilda misgerðir þeirra sem hafa haldið fast við lög þín og gætt þess sem þú hefur boðið þeim í bók þinni. Þú sérð mig, ó Guð minn, halda í nafn þitt, hið helgasta og skærasta, máttugasta og æðsta, upphafnasta og dýrlegasta, og taka föstu taki um fald þess kyrtils sem allir í þessum heimi og þeim sem kemur hafa tekið í.

-Bahá'u'lláh
-----------------------
Fastan (#1768)

Lof sé þér, ó Drottinn Guð minn! Ég bið þig við þessa opinberun, sem hefur snúið myrkri í ljós, reist hið fjölsótta musteri, opinberað hina skráðu töflu og afhjúpað hið opna bókfell, að senda það niður yfir mig og þá, sem eru í félagsskap mínum, sem gerir okkur fært að stíga upp til himna yfirskilvitlegrar náðar þinnar og hreinsar okkur af saurgun þeirra efasemda, sem aftrað hafa hinum tortryggnu frá því að stíga inn í tjaldbúð einingar þinnar.

Ég er sá, ó Drottinn minn, sem haldið hef fast í taug ástríkis þíns og tekið föstum höndum um klæðisfald miskunnar þinnar og hylli. Ákvarða mér og ástvinum mínum gæði þessa heims og þess sem kemur. Gef þeim því hina huldu gjöf, sem þú áformaðir hinum útvöldu meðal skepna þinna.

Þetta eru þeir dagar, ó Drottinn minn, er þú hefur boðið þjónum þínum að halda föstuna. Sæll er sá, sem heldur föstuna einungis vegna þín, fullkomlega fráhverfur öllu nema þér. Hjálpa mér og hjálpa þeim, ó Drottinn minn, að hlýðnast þér og halda boð þín. Þú hefur vissulega vald til að gera það, sem þér líst.

Enginn er Guð nema þú, hinn alvitri, hinn alvísi. Allt lof sé Guði, Drottni allra veraldanna.

-Bahá'u'lláh
-----------------------
Fastan (#1769)

Þessir eru þeir dagar, ó Guð minn, er þú hefur boðið þjónum þínum að halda föstuna. Með henni prýddir þú inngang lagabókar þinnar sem þú opinberaðir skepnum þínum og reiddir fram úr hirslum boða þinna í augsýn allra á himni þínum og jörðu. Þú hefur gætt hverja klukkustund þessara daga sérstakri dyggð, sem er órannsakanleg öllum nema sjálfum þér. Þekking þín umlykur allt sem er. Þú hefur einnig úthlutað sérhverri sál ákveðnum skerfi þessarar dyggðar í samræmi við töflu ákvörðunar þinnar og ritningar þíns óafturkallanlega dóms. Sérhverju blaði þessara bóka og ritninga hefur þú einnig úthlutað sérhverri þjóð og kynkvísl jarðar.

Einlægum ástvinum þínum hefur þú samkvæmt ákvörðun þinni áskilið í dögun hverri bikar minningar þinnar, ó þú sem ert leiðtogi leiðtoga! Þetta eru þeir sem eru svo ölvaðir af víni margfaldrar visku þinnar að þeir yfirgefa beði sína í löngun til að færa þér lof og vegsama dyggðir þínar og flýja svefninn í innilegri þrá sinni að nálgast þig og hljóta skerf af hylli þinni. Augu þeirra hafa ætíð beinst að dagsbrún ástúðar þinnar og andlit þeirra að brunni innblásturs þíns. Lát þessvegna rigna yfir þá, og yfir okkur, úr skýjum náðar þinnar því sem sæmir himni örlætis þíns og náðar.

Lofað sé nafn þitt, ó Guð minn! Þetta er stundin er þú hefur lokið upp dyrum vildar þinnar í ásýnd skepna þinna og opnað á gátt hlið mildrar miskunnar þinnar öllum sem dvelja á jörðu þinni. Ég sárbið þig við þá sem úthelltu blóði sínu á vegi þínum, sem í þrá sinni eftir þér sneru baki við öllum skepnum þínum og voru svo hugfangnir af sætum ilmi innblásturs þíns að sérhver limur líkama þeirra söng þér lof og ómaði af minningu þinni, að svifta okkur ekki því sem þú hefur óafturkallanlega ákvarðað í þessari opinberun, sem er svo voldug að sérhvert tré hefur hrópað það sem brennandi þyrnirunninn kunngerði Móse fyrr á tímum, honum sem ræddi við þig, – opinberun sem gerir hverri steinvölu kleift að enduróma af lofi þínu líkt og steinarnir vegsömuðu þig á dögum Múhammeðs, vinar þíns.

Þetta eru þeir, ó Guð minn, sem þú hefur náðarsamlega gert kleift að vera í félagsskap þínum og samneyta honum sem opinberar þitt eigið sjálf. Vindar vilja þíns hafa dreift þeim víða vegu uns þú safnaðir þeim saman í skugga þínum og lést þá ganga inn til sviða aðseturs þíns. Nú þegar þú hefur leyft þeim að dvelja í forsælunni af tjaldhimni náðar þinnar, aðstoða þá við að öðlast það sem sæmir svo tiginni stöðu. Lát þá ekki, ó Drottinn minn, teljast til þeirra sem nutu samvista við þig en var meinað að bera kennsl á ásýnd þína og eru sviftir návist þinni þótt þeir gangi á fund þinn.

Þetta eru þjónar þínir, ó Drottinn minn, sem hafa gengið með þér inn í þessa mestu prísund og haldið föstuna innan veggja hennar í samræmi við það sem þú fyrirskipaðir þeim í töflum ákvörðunar þinnar og bókum fyrirmæla þinna. Send því niður yfir þá það sem hreinsar þá algjörlega af öllu sem þér er andstyggð svo þeir megi verða fullkomlega helgaðir þér og skiljast til fulls frá öllu nema þér.

Lát því rigna yfir okkur, ó Guð minn, sem sæmir náð þinni og er verðugt hylli þinnar. Ger okkur því kleift, ó Guð minn, að lifa í minningu um þig og deyja í ást á þér og veit okkur gjöf návistar þinnar í þeim veröldum þínum sem koma – veröldum sem eru órannsakanlegar öllum nema þér. Þú ert Drottinn okkar og Drottinn allra veraldanna og Guð allra á himni og jörðu.

Þú sérð, ó Guð minn, hvað fallið hefur ástvinum þínum í hlut á dögum þínum. Dýrð þín ber mér vitni! Kveinstafir þinna útvöldu hafa hljómað um allt ríki þitt. Sumir voru leiddir í gildru af trúvillingunum í landi þínu og meinað um náið samneyti við þig og aðgang að forgarði dýrðar þinnar. Aðrir gátu nálgast þig en var varnað að líta ásýnd þína. Enn öðrum var í löngun sinni að líta þig veittur aðgangur að forgarði þínum, en þeir leyfðu blæjum ímyndana skepna þinna og rangindunum sem kúgararnir meðal fólks þíns beittu að koma á milli sín og þín.

Þetta er stundin, ó Drottinn minn, sem þú hefur gert ágætari öllum öðrum stundum og tengt hinum fremstu meðal skepna þinna. Ég sárbæni þig, ó Guð minn, við sjálf þitt og við þá, að fyrirskipa það á þessu ári sem upphefur ástvini þína. Ákvarða einnig á þessu ári það sem lætur sól valds þíns skína glatt yfir sjónarhring dýrðar þinnar og upplýsa allan heiminn með allsráðandi mætti þínum.

Ger málstað þinn sigursælan, ó Drottinn minn, og niðurlæg óvini þína. Skrifa síðan niður fyrir okkur hið góða í þessu lífi og því sem kemur. Þú ert sannleikurinn sem þekkir hið leynda. Enginn er Guð nema þú, sá sem ætíð fyrirgefur, sá sem allt gefur.

-Bahá'u'lláh
-----------------------
Fastan (#1770)

Dýrð sé þér, ó Drottinn Guð minn! Þetta eru þeir dagar er þú hefur boðið öllum mönnum að halda föstuna svo þeir megi með henni hreinsa sálir sínar og leysast úr viðjum alls nema þín og úr hjörtum þeirra megi það stíga upp sem er verðugt forgarði tignar þinnar og sæmir aðsetri opinberunar einleika þíns. Gef, ó Drottinn minn, að þessi fasta megi verða elfur lífgefandi vatns og gefi af sér dyggðina sem þú hefur gætt hana. Hreinsa þú með fulltingi hennar hjörtu þjóna þinna, sem meinsemdir þessa heims hafa ekki megnað að snúa frá aldýrlegu nafni þínu og ekki hafa látið truflast af háreysti og uppnámi þeirra sem höfnuðu dýrlegustu táknum þínum, er fylgdu komu opinberanda þíns, honum sem þú fékkst í hendur yfirráð þín, vald, tign og dýrð. Þetta eru þeir þjónar sem flýttu sér í átt til náðar þinnar jafnskjótt og kall þitt barst þeim til eyrna og létu ekki hverfulleika heimsins né nokkrar mannlegar takmarkanir koma á milli sín og þín.

Ég er sá, ó Guð minn, sem ber vitni einingu þinni, viðurkenni einstakleika þinn, beygi mig í auðmýkt frammi fyrir opinberun tignar þinnar og viðurkenni niðurlútur ljómann af ljósi yfirskilvitlegrar dýrðar þinnar. Ég hef trúað á þig eftir að þú gerðir mér kleift að þekkja þitt eigið sjálf, sem þú opinberaðir augum manna í krafti yfirráða þinna og máttar. Til hans hef ég leitað fullkomlega fráhverfur öllu sem er og haldið fast í líftaug gjafa þinna og hylli. Ég hef játast sannleika hans og sannleika allra þeirra undursamlegu laga og fyrirmæla sem send hafa verið niður til hans. Ég hef fastað vegna ástar á þér og í samræmi við boð þín og hef rofið föstuna með lof þitt á vörum mér og í samræmi við velþóknun þína. Lát mig ekki, ó Drottinn minn, teljast til þeirra sem hafa fastað að degi til, varpað sér flötum frammi fyrir ásýnd þinni að næturþeli og sem hafa hafnað sannleika þínum, afneitað trú á tákn þín, andmælt vitnisburði þínum og afbakað orð þín.

Opna þú, ó Drottinn minn, augu mín og augu allra sem hafa leitað þín, að við megum þekkja þig með þínum eigin augum. Þetta er boð þitt sem okkur er gefið í bókinni sem þú sendir niður til hans sem þú hefur útvalið samkvæmt skipun þinni, sem þú kaust að sýna hylli þína einum allra skepna þinna, sem þér þóknaðist að fá í hendur yfirráð þín, veita sérstaka hylli og treysta fyrir boðskap þínum til þjóða þinna. Lof sé þér því, ó Guð minn, að þú hefur náðarsamlega gert okkur kleift að þekkja hann og viðurkenna allt sem honum hefur verið sent og veitt okkur þann heiður að komast í návist hans sem þú gafst fyrirheit um í bók þinni og töflum.

Þú sérð mig því, ó Guð minn, beina augliti mínu til þín, taka í líftaug náðarsamlegrar forsjónar þinnar og örlætis og halda fast í klæðisfald mildrar miskunnar þinnar og örlátrar hylli. Ég bið þig að bregðast ekki vonum mínum um að eignast það sem þú ákvarðaðir þjónum þínum sem sneru sér til forgarðs návistar þinnar og héldu föstuna vegna ástar á þér. Ég játa, ó Guð minn, að allt sem kemur frá mér er fullkomlega óverðugt yfirráðum þínum og hæfir ekki tign þinni. Og samt bið ég þig við þetta nafn sem hefur látið þitt eigið sjálf opinberast í dýrð ágætustu titla þinna öllum sköpuðum verum í þessari opinberun þar sem þú birtir fegurð þína í dýrlegasta nafni þínu, að gefa mér að drekka af víni náðar þinnar og hreinum miði hylli þinnar sem hefur streymt frá hægri hönd vilja þíns, svo að ég megi festa sjónir á þér og verða svo fráhverfur öllu nema þér að veröldin og allt sem í henni var skapað verði fyrir mér sem svipull dagur sem þér hefur ekki þótt við hæfi að skapa.

Auk þess sárbið ég þig, ó Guð minn, að láta því rigna frá himni vilja þíns og úr skýjum miskunnar þinnar sem hreinsar okkur af viðurstyggð misgerða okkar, ó þú sem hefur kallað sjálfan þig Guð miskunnsemi! Þú ert vissulega hinn voldugasti og aldýrlegi, hinn gæskuríki.

Varpa ekki frá þér, ó Drottinn minn, þeim sem hefur leitað til þín og lát ekki þann sem hefur nálgast þig vera fjarri forgarði þínum. Bregst ekki vonum biðjandans sem réttir út löngunarfullar hendur sínar og leitar náðar þinnar og hylli og svift ekki einlæga þjóna þína undrum mildrar miskunnar þinnar og ástúðar. Þú ert fyrirgefandinn, hinn örlátasti, ó Drottinn minn! Þú hefur vald til að gera það sem þér þóknast. Allt annað en þú er máttvana andspænis opinberunum máttar þíns, týnt og glatað andspænis vitnisburðum auðæfa þinna, alls ekkert í samanburði við birtingar yfirskilvitlegra yfirráða þinna og magnþrota andspænis táknum og ummerkjum valds þíns. Hvaða athvarf er að finna annað en þig, ó Drottinn minn, sem ég gæti leitað og hvar er það skjól sem ég gæti flúið til? Nei, vald máttar þíns ber mér vitni! Engan verndara er að finna annan en þig, hvergi er hægt að flýja nema til þín, einskis athvarfs að leita nema hjá þér. Lát mig því smakka ó Drottinn minn, himneskan sætleika minningar þinnar og lofs. Ég sver við mátt þinn! Hver sem smakkar sætleika hennar mun snúa baki við heiminum og öllu sem í honum er og beina sjónum að þér, hreinsaður af minningu um nokkurn nema þig.

Innblás því sál mína, ó Guð minn, með undursamlegri minningu þinni svo ég megi gera nafn þitt dýrlegt. Tel mig ekki með þeim sem lesa orð þín án þess að finna hulda gjöf þína sem fólgin er í þeim samkvæmt ákvörðun þinni og sem fjörgar sálir skepna þinna og hjörtu þjóna þinna. Lát mig, ó Drottinn minn, teljast til þeirra sem hafa hrifist svo mjög af þeim ljúfa ilmi sem borist hefur á dögum þínum, að þeir hafa fórnað lífi sínu fyrir þig og flýtt sér á vettvang dauða síns í löngun sinni að líta fegurð þína og þrá sinni að komast í návist þína. Og ef einhver segði við þá á vegferð þeirra: „Hvert er förinni heitið?“ myndu þeir svara: „Til Guðs, eiganda alls sem er, þess sem hjálpar í nauðum, hins sjálfumnóga!“

Misgerðir þeirra sem hafa snúið frá þér og borið sig drambsamlega gagnvart þér hafa ekki aftrað þeim frá að elska þig og beina sjónum að þér og snúa sér til náðar þinnar. Þetta eru þeir sem njóta blessunar herskaranna á hæðum, hljóta vegsömun íbúanna í eilífum borgum þínum, auk þeirra sem bera á enni sér áletrun hins upphafnasta penna: „Þessir! Fylgjendur Bahá! Fyrir þá hefur ljósi leiðsagnar verið úthellt.“ Þannig hefur það verið ákveðið að þínu boði og með vilja þínum í töflum óafturkallanlegrar ákvörðunar þinnar. Kunnger því, ó Guð minn, mikilleika þeirra sem í lífi sínu eða eftir dauða sinn hafa hringsólað um þá. Veit þeim það sem þú hefur ákvarðað hinum réttlátu meðal skepna þinna. Þú hefur vald til að framkvæma alla hluti. Enginn er Guð nema þú, hinn alvoldugi, hjálpin í nauðum, hinn almáttugi og veglyndasti.

Bind ekki endi á föstur okkar með þessari föstu, ó Drottinn minn, né á sáttmálana sem þú hefur gert með þessum sáttmála. Veit viðtöku öllu sem við höfum gert vegna ástar á þér og sakir velþóknunar þinnar og öllu sem við höfum látið ógert sakir undirgefni okkar við illar og spilltar ástríður. Ger okkur því megnugt að halda fast við ást þína og velþóknun og gæt okkar gegn illvild þeirra sem hafa afneitað þér og hafnað dýrlegustu táknum þínum. Þú ert í sannleika Drottinn þessa heims og hins næsta. Enginn er Guð nema þú, hinn upphafni og hæsti.

Mikla þú, ó Drottinn Guð minn, þann sem er Frumpunkturinn, hinn himneski leyndardómur, óséði kjarni, dagsbrún guðdómsins og opinberun herradóms þíns. Fyrir tilstuðlan hans var öll þekking fortíðar og framtíðar gerð augljós, perlur huldrar visku þinnar, afhjúpaðar ásamt leyndardómum þíns dýrmæta nafns. Þú útnefndir hann kallara þess opinberanda, sem tengdi saman bókstafina V, E og R með nafni sínu. Sakir hans var tign þín, yfirráð og máttur kunngerður, orð þín send niður, skýr lög þín sett, tákn þín birt og orð þitt grundvallað. Sakir hans var hulunni svift af hjörtum þinna útvöldu og öllum á himni og jörðu safnað saman. Hann er sá sem þú hefur nefnt Alí Múhammeð í ríki nafna þinna og anda andanna í töflum óafturkallanlegrar ákvörðunar þinnar og honum hefur þú gefið þinn eigin titil. Til nafns hans hafa öll önnur nöfn að boði þínu og með valdi máttar þíns verið látin snúa og í honum hefur þú látið allar eigindir þínar og titla ná endanlegri fyllingu sinni. Honum tilheyra einnig þau nöfn sem voru falin innan flekklausra tjaldbúða þinna í ósýnilegri veröld þinni og helguðum borgum.

Mikla þú einnig þá sem hafa trúað á hann og tákn hans og leitað til hans, þá sem hafa viðurkennt einingu þína í seinni opinberun hans – opinberun sem hann tilgreindi í töflum sínum, bókum og ritningum og öllum þeim undursamlegu versum og djásnumlíku orðum sem stigið hafa niður til hans. Þú bauðst honum að stofna sáttmála þessarar sömu opinberunar áður en hann stofnaði sinn eigin sáttmála. Það er hann sem er vegsamaður í Bayáninum. Þar er lof borið á ágæti hans og sannleikur hans grundvallaður, yfirráð hans kunngerð og málstaður hans fullkomnaður. Sæll er sá sem hefur leitað til hans og uppfyllt það sem hann hefur fyrirskipað, ó þú sem ert Drottinn veraldanna og þrá allra sem hafa þekkt þig!

Lofaður sért þú, ó Guð minn, því að þú hefur hjálpað okkur til að þekkja hann og elska. Því bið ég við hann og við þá sem eru dagsbrúnir guðdóms þíns og birtingar herradóms þíns, fjárhirslur opinberunar þinnar og forðabúr innblásturs þíns, að þú gerir okkur kleift að þjóna honum og hlýða, styrkir okkur til að hjálpa málstað hans og dreifa andstæðingum hans. Þú ert þess megnugur að gera það sem þér þóknast. Enginn er Guð nema þú, hinn almáttugi og aldýrlegi, sá sem allir leita ásjár hjá!

-Bahá'u'lláh
-----------------------

Table of Contents: Albanian :Arabic :Belarusian :Bulgarian :Chinese_Simplified :Chinese_Traditional :Danish :Dutch :English :French :German :Hungarian :Íslenska :Italian :Japanese :Korean :Latvian :Norwegian :Persian :Polish :Portuguese :Romanian :Russian :Spanish :Swedish :Turkish :Ukrainian :